Ójöfnuður hefur sveiflast nokkuð milli ára samkvæmt niðurstöðum Lífskjararannsóknar Hagstofunnar. Gini-stuðullinn var 23,4 árið 2018 og hafði lækkað um 1,9 stig frá árinu 2017 þegar hann var 25,3. Hagstofan greinir frá þessu á vef sínum.

„Hinsvegar hækkaði Gini-stuðullinn árið 2017 frá árinu 2016 þegar hann var 24,1. Fimmtungastuðulinn, sem mælir tekjumun á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs, sýnir sömu tilhneigingu en hann fór úr 3,3 árið 2016 í 3,6 árið 2017 og svo niður í 3,2 árið 2018. Þetta gefur til kynna að ójöfnuður hafi aukist milli áranna 2016 og 2017 en minnkað aftur milli 2017 og 2018.

Þó ójöfnuður haldist áfram lágur í evrópskum samanburði hafa þessar sveiflur áhrif á stöðu Íslands miðað við önnur lönd, þar eð Ísland var með minnsta ójöfnuðinn árið 2016, deildi fjórða minnsta ójöfnuðinum með Finnlandi árið 2017 og deildi öðru sæti yfir minnsta ójöfnuðinn með Slóveníu árið 2018,“ segir jafnframt í frétt Hagstofunnar.