Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu níu mánuði ársins liggur nú fyrir, en það gefur upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda.

Tekjujöfnuður ríkisins fyrir fyrstu níu mánuði ársins var lítillega neikvæður, um 2,7 milljarða, en þó betri en gert hafði verið ráð fyrir. Innheimtar tekjur voru 469,6 milljarðar og jukust um 26,2 milljarða króna milli ára, eða um 5,9%.

Frávik frá fjárhagsáætlun er jákvætt um 8,4% en það skýrist að mestu af óreglulegum eða tilfallandi liðum. Skatttekjur voru 416,4 milljarðar og jukust um 7,5% milli ára.

Greidd gjöld voru 472,4 milljarðar króna og jukust um 38,3 milljarða króna, eða um 8,8%, en það er í samræmi við áætlanir. Mesta aukningin er á sviði efnahags- og atvinnumála en sú aukning er vegna niðurfærslu verðtryggðra húsnæðismála sem gjaldfærð var í lok árs 2014 en kom til greiðslu í byrjun árs 2015.