Handbært fé til eigin rekstrar ríkissjóðs í janúarlok var jákvætt um 25,4 milljarða króna, sem er tæplega tveimur milljörðum betri útkoma en á sama tíma í fyrra.

Tekjur voru ríflega 9% meiri en á sama tíma í fyrra, eða sem nemur 4,6 milljörðum króna, alls rúmlega 56,6 milljarðar króna. Þar af námu skatttekjur og tryggingargjöld 54,2 milljörðum króna, og voru skattar á tekjur og hagnað 31,7 milljarðar króna, sem er 5,7% aukning frá janúar 2007.

Mest jókst skattur af fjármagnstekjum í þessum lið, eða um 17,2% á milli tímabilanna, sem jafngildir 23,5 milljörðum króna. Innheimta skattsins fer að stærstum hluta fram í janúar ár hvert.

Eignarskattar jukust um 40% frá fyrra ári og námu 831 milljónum króna, þar af námu stimpilgjöld 629 milljónum króna.

Útgjöld ríkisins jukust um 11,5%

Í janúar jukust gjöldin um 3,3 milljarða króna miðað við sama tíma í fyrra, eða um 11,5%, og voru um 31,6 milljarðar króna.

Mest munar um eins milljarðs hækkun til menntamála eða 21% og vegur lánasjóður námsmanna þar þyngst með um 500 milljón króna hækkun á milli ára.

Almannatryggingar og velferðarmál hækka um 0,6 milljarða milli ára eða 11%, og heilbrigðismál um 0,5 milljarða, eða 6,8%. Þessir þrír málaflokkar vega langþyngst í heildarútgjöldum ríkisins og eru með tæplega 2/3 hluta útgjaldanna.

Í janúar var hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs jákvæður um 24,4 milljarða króna en var neikvæður um 6,8 milljarða króna á sama tíma í fyrra.