Tekjur Joe Biden Bandaríkjaforseta námu 607 þúsund dölum, eða rúmlega 75 milljónum króna, á síðasta ári samkvæmt skattaframtali hans. Tekjurnar hans voru talsvert hærri áður en hann hóf framboð sitt til forseta en árin 2017-2019 þénaði hann samtals 16,5 milljónir dala, eða um 2 milljarða króna, vegna hárra greiðslna fyrir að koma fram sem fyrirlesari eftir að hann lauk seinna kjörtímabili sínu sem varaforseti.

Á tíma hans í fulltrúardeildarþinginu var Biden þó ávallt nálægt botninum á auðæfalista þingmanna, samkvæmt frétt Bloomberg . Hann hampaði því að hafa birt skattaframtöl sín nær samfleytt í 23 ár í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær sem má fastlega gera ráð fyrir að hafa verið skot á forvera hans, Donald Trump, sem birti ekki framtöl sín þegar hann gegndi embættinu.

Af tekjum Biden hjónanna á síðasta ári, fengu þau um 32 milljónir króna í lífeyrisgreiðslur og 6 milljónir króna í almannatryggingabætur. Restin af tekjunum kom að mestu leyti fyrir störf Jill Biden við háskóla í Norður Virginia. Biden hjónin greindu frá rúmlega 1,8 milljóna dala fjáreignum samanborið við 3,2 milljónir dala árið áður.

Tekjur Kamal Harris, varaforseta Bandaríkjanna, og eiginmanns hennar, Doug Emhoff, námu 1,7 milljónum dala, eða um 210 milljónir króna, á síðasta ári, aðallega vegna starfa Emhoff hjá lögfræðistofunni DLA Piper þar sem hann var meðeigandi. Hann sagði sig þó frá stofunni eftir að hún tók við embættinu í janúar.

Harris og Emhoff greiddu samtals 36,7% skatthlutfall (e. federal income tax rate) á síðasta ári samanborið við 25,9% hjá Biden hjónunum.