A-hluti borgarsjóðs var rekinn með tæplega 1,4 milljarða króna afgangi á fyrstu níu mánuðum ársins, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 674 milljóna króna tapi á rekstrinum. Þegar A- og B-hlutar borgarsjóðs eru teknir saman var hins vegar 4,3 milljarða króna tap á rekstri borgarinnar, sem er langt frá því sem að var stefnt í fjárhagsáætlun. Þar var gert ráð fyrir 2,9 milljarða króna afgangi á rekstri A- og B-hluta.

Munurinn á afkomu A- og B- hluta og fjárhagsáætlunarinnar skýrist aðallega af því að fjármagnsgjöld voru mun meiri en gert var ráð fyrir, eða 20 milljarðar króna í stað 4,5 milljarða. Þar vega þyngst 8,9 milljarðar í vaxtagjöld og verðbætur og 8,5 milljarðar í gengismun.

Skuldir A-hluta borgarsjóðs jukust töluvert á árinu. Voru þær 47,8 milljarðar í árslok 2010, en í lok september á þessu ári voru þær 54,4 milljarðar. Skuldir við lánastofnanir jukust um tæpa þrjá milljarða króna.