Fjölmiðlasamsteypan News Corp skilaði hagnaði up á 27 milljónir dala, jafnvirði 3,3 milljarða íslenskra króna, á síðasta ársfjórðungi. Þetta er talsverður bati á milli ára en á þriðja ársfjórðungi í fyrra nam taprekstur fyrirtækisins 92 milljónum dala. Tekjur námu 2,07 milljörðum dala. Það er undir væntingum Thomson Reuters , sem bjóst við 2,2 milljarða dala tekjum. Auðkýfingurinn Rupert Murdoch er forstjóri News Corp.

Reuters-fréttastofan bendir á að þetta hafi verið fyrsti fjórðungurinn í bókum News Corp sem sjálfstætt félag, þ.e. án tengdra félaga en rekstri News Corp var breytt talsvert fyrr á árinu, þar af skipt frá 21st Century Fox í júlí.

Undir News Corp eru nú dagblöð og sjónvarpsstöðvar á borð við The Wall Street Journal, Times of London, bókaútgáfan HarperCollings, kapalstöð í Ástralíu og tengdar eignir. Meginþorri tekna News Corp kemur frá dagblaðarekstrinum og hafa tekjur þar verið að dragast saman upp á síðkastið, samkvæmt umfjöllun Reuters sem bendir á að sala á auglýsingum hafi dregist saman um 22% í Ástralíu.