Samkvæmt uppgjöri Flögu Group nemur tap þriðja ársfjórðungs 7,4 milljónum króna (107 þúsund dölum)  og tap fyrstu níu mánaða ársins nemur 97 milljónum króna (1,4 milljón dala). Tekjur námu 522 milljónum króna  (7,5 milljón dala) á þriðja ársfjórðung sem er 16% samdráttur frá því fyrir ári síðan. En tekjur fyrstu níu mánaða ársins dragast saman um 12% miðað við sama tímabil fyrra árs og nema 1,5 milljarði króna (22,8 milljónum dala). EBITDA framlegð nam 316 þúsund dölum á þriðja ársfjórðungi.

Í tilkynningu félagsins segir að tekjutap í Evrópu og á öðrum mörkuðum utan Bandaríkjanna er sem fyrr, megin orsök þessa samdráttar. Salan dróst einnig lítillega saman í Bandaríkjunum á þriðja fjórðungnum en óafgreiddar pantanir til viðskiptavina sem þeir voru ekki tilbúnir að taka á móti voru meiri en á fyrri tímabilum, en þær verða afgreiddar á fjórða ársfjórðungi. Áfram er unnið að endurskipulagningu dreifikerfis félagsins með nýjum samningum við dreifingaraðila í Ástralíu og á Nýja Sjálandi og áframhaldandi viðræðum við aðra samstarfsaðila á heimsvísu.

Þá er greint frá því að megin orsök samdráttar í sölu sú að það hefur tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir að endurskipuleggja dreifikerfið ásamt þjálfun og tækniþjónustu sem er nauðsynlegt til að ná langtíma árangri. Áfram er gert ráð fyrir samdrætti í sölu á fjórða ársfjórðungi en framangreind vinna er talin nauðsynleg til að gera félagið betur í stakk búið að geta nýtt sér vaxtarmöguleika á þessum mörkuðum. Sala þjónustulausna var sem fyrr arðbær á þriðja fjórðungi ársins.


Heildareignir þann 30. september 2006 námu USD 60,1 milljón, sem er lækkun um USD 1,6 milljónir frá ársbyrjun. Reiknuð skattinneign var eignfærð og nam USD 3,7 milljónum í lok þriðja ársfjórðungs 2006. Eigið fé nam USD 39,6 milljónum þann 30. september, samanborið við USD 41 milljón í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfallið var 66% sem er sama hlutfall og í árslok 2005.


í  tilkynningu félagsins eru framtíðarhorfur sagðar góðar meðal annars vegna þess að markaður svefngreininga heldur áfram að vaxa og tækifærin í greininni gríðarleg. Norður-Ameríka er áfram stærsti staki markaðurinn og þar leggur félagið áherslu á að notfæra sér viðskiptasambönd sín við fyrirtæki í sölu lækningartækja og við önnur fyrirtæki sem geta hjálpað félaginu að útvíkka viðskiptin. Markaðir í Evrópu, eins og Þýskalandsmarkaður, vaxa einnig hratt og eru samanlagt sambærilegir við Bandaríkin í stærð og vexti. Félagið leggur áfram áherslu á aukið samstarf við dreifingaraðila á mörkuðum utan Evrópu til að nýta vaxtartækifæri þar, sérstaklega í Asíu.

"Nýtt alþjóðlegt viðskiptamódel gerir félagið nú betur í stakk búið en nokkru sinni fyrr til að nýta tækifæri á hratt vaxandi og arðsömum markaði um komandi ár. Þrátt fyrir samdrátt í tekjum er yfirstjórn Flögu Group hf. þess fullviss sem fyrr að markmiðum um skilvirkni og stöðugan markaðsvöxt sem var driffjöður skipulagsbreytinga verði náð og að félagið sé á réttri braut til að ná langtíma rekstrarárangri," segir í tilkynningu.