Klappir Grænar lausnir ehf., sem bað um skráningu á First North markaðinn í haust, hefur skilað uppgjörsupplýsingum fyrir þriðja ársfjórðung, en þar kemur fram að EBITDA hagnaður félagsins hafi numið 1,4 milljón króna en viðskiptavinum þess sé jafnframt að fjölga.

Fyrirtækið veitir lausnir á sviði umhverfismála og er þeim ætlað að styðja fyrirtæki, sveitarfélög og ríki við að byggja upp öfluga innviði til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru á því sviði. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma fékk fyrirtækið skráningu 20. september síðastliðinn, og má sjá hér myndir frá skráningunni.

Lykiltölur úr óendurskoðuðu milliuppgjöri Klappa Grænna Lausna hf. eru sem hér segir:

Tekjur samstæðunnar á þriðja ársfjórðungi voru 50,4 m.kr. Tekjur samstæðunnar fyrstu níu mánuði ársins voru 148,7 milljónir króna og jukust um 182% milli ára. EBITDA afkoma á þriðja ársfjórðungi var 1,4 milljónir króna. Viðskiptavinir félagsins voru 43 í lok árshlutans en alls nota 143 lögaðilar hugbúnað félagsins.

Jón Ágúst Þorsteinsson , forstjóri segir reksturinn á þriðja árshluta ársins 2017 hafa gengið vel. „Viðskiptavinum félagsins fjölgar jafnt og þétt en mörg af öflugustu félögum landsins eru í viðskiptum,“ segir Jón Ágúst.

„Skráning félagsins á Nasdaq First North markaði í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi gekk vel. Með skráningunni gefst þeim fjárfestum og einstaklingum, sem hafa trú á að með grænum innviðum og öflugri upplýsingatækni tækifæri til að vera þátttakendur í þróun grænna hugbúnaðarlausna og innleiðingu þeirra í gegnum Klappir.

Félagið hefur sterka stöðu og býr yfir framúrskarandi starfsfólki, nægu veltufé og traustum viðskiptavinum sem myndar grundvöllinn fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins."