Aðsóknartekjur í kvikmyndahúsum árið 2014 námu 1.485.618.475 kr. sem er 0,4% minna en árið 2013. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRISK).

Gestir kvikmyndahúsa árið 2014 voru 2,3 prósent færri en árið 2013, eða 1.344.569 manns árið 2014 miðað við 1.375.723 á árinu 2013.

Meðalverð á bíómiða var um 1.105 kr., sem er innan við tveggja prósenta hækkun frá árinu á undan. Hækkun á meðalverði bíómiða og hlutfallsleg minni breyting á tekjum á móti aðsókn skýrist að miklu leyti af fjölda íslenskra kvikmynda sem frumsýndar voru árið 2014, en íslenskar kvikmyndir eru með hærra miðaverð en erlendar myndir. Einnig dró úr aðsókn á kvikmyndir sem voru sýndar í þrívídd og eru með hærra miðaverð.

Þrjár íslenskar kvikmyndir röðuðu sér á topp 20 listann yfir tekjuhæstu myndir ársins. Þar er fremst í flokki Vonarstræti sem var tekjuhæsta kvikmynd ársins en hún halaði inn tæpar 70 milljónir króna í tekjur og var jafnframt sú kvikmynd sem hlaut mesta aðsókn með tæpa 48.000 gesti. Þá var kvikmyndin Algjör Sveppi og Gói Bjargar Málunum í 8. sæti með rétt rúmar 37 milljónir króna í tekjur og rúmlega 32.600 manns í aðsókn þegar þetta er ritað, en myndin er enn í sýningu. Afinn hafnaði í 17. sæti með rúmar 22 milljónir króna í tekjur og tæpa 15.000 gesti. Engin íslensk kvikmynd náði inn á topp 20 listann á árinu 2013.

Önnur tekjuhæsta kvikmynd ársins er lokakaflinn um Hobbitann, The Hobbit: The Battle of the Five Armies, sem náði þeim árangri að hala inn yfir 50 milljónir króna og var með rúmlega 40.000 manns í aðsókn á einungis einni viku. Þá afrekaði hún það að vera með stærstu opnunarhelgi sögunnar í íslenskum kvikmyndahúsum, í tekjum talið, eftir frumsýninguna þann 26. desember sl. Sú þriðja vinsælasta, Guardians of the Galaxy, var jafnframt vinsælasta kvikmyndin í Bandaríkjunum á árinu 2014.

Tuttugu tekjuhæstu kvikmyndir ársins 2014

  1. Vonarstræti 69,677,709 kr.
  2. The Hobbit: The Battle of the five Armies* 50,757,536 kr.
  3. Guardians of The Galaxy 49,336,045 kr.
  4. The Secret Life of Walter Mitty 41,791,088 kr.
  5. The Hobbit: The Desolation of Smaug 40,766,490 kr.
  6. Algjör Sveppi og Gói Bjargar Málunum* 37,064,927 kr.
  7. Interstellar* 36,804,751 kr.
  8. Dumb and Dumber To* 34,945,080 kr.
  9. The Hunger Games: Mockingjay Part 1* 33,532,515 kr.
  10. The Lego Movie 30,647,785 kr.
  11. 22 Jump Street 29,760,500 kr.
  12. How to Train Your Dragon 2 29,622,737 kr.
  13. The Wolf of Wall Street 28,661,415 kr.
  14. Captain America: The Winter Soldier 26,371,445 kr.
  15. X-Men: Days of Future Past 23,757,405 kr.
  16. Transformers: Age of Extinction 22,879,727 kr.
  17. Afinn 22,185,100 kr.
  18. Gone Girl 21,909,226 kr.
  19. Teenage Mutant Ninja Turtles 21,758,402 kr.
  20. The Amazing Spider-Man 2 21,083,711 kr.