„Ég bið alla hryðjuverkamenn landsins að koma með vopnin sín, hvort sem það eru snuð, skóflur, tölvur, greiður eða eitthvað annað," segir Þorkell Þorkelsson ljósmyndari sem hefur sett af stað ljósmyndaverkefnið: Íslenskir hryðjuverkamenn.

Verkefnið snýst um að taka myndir af „íslensku hryðjuverkamönnunum" en tilgangurinn er, segir hann, að sýna fram á fáránleika þess að bresk stjórnvöld hafi nýlega beitt hryðjuverkalögum þar í landi til að frysta eignir Íslendinga. Með því hafi bresk stjórnvöld valdið íslensku þjóðinni og ímynd landsins óbærilegum skaða.

Þorkell  hyggst setja upp sýningu á myndunum svo fljótt sem auðið er. Hann vonast jafnframt til þess að sýningin nái út fyrir landsteinana.

„Þetta er góð leið til að ulla framan í þessa labbakúta," segir hann.

Þegar hann er spurður hvernig verkefnið hafi komið til svarar hann: „Ég gat varla sofið eitt kvöldið því ég var svo reiður fyrir hönd þjóðarinnar að vera kallaður hryðjuverkamaður. Ég velti því fyrir mér hvað ég gæti gert og hugsaði: Gott og vel, ef við erum hryðjuverkamenn þá verð ég að sýna hvaða vopn við höfum. Mitt vopn er myndavélin. Ég vil gjarna nota það til að mynda aðra hryðjuverkamenn, svo sem þá sem hafa atvinnu af því að sjúga snuddu allan daginn,  eða þá sem nota tölvu allan daginn."

Vill fá hryðjuverkamenn á öllum aldri

Þannig segist hann vilja nota  háðið og húmorinn til að sýna fram á fáránleika og ruddaskap breskra stjórnvalda í garð Íslendinga. „Þetta á að vera gaman og þetta á að vera sprell en undirtónninn er grafalvarlegur.

Við erum lítil herlaus þjóð. Við eigum tvö eða þrjú varðskip og löggan á nokkrar byssur. Það eru öll vopnin!"

Hann hvetur fólk til að hafa samband við sig til að taka þátt í verkefninu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.