Emil Einarsson mun í mánuðinum taka við sem framkvæmdastjóri Vörusviðs Nýherja hf. Hann tekur við af Þorvaldi Jacobsen.

Vörusvið er ábyrgt fyrir innflutningi, birgjasambandi og markaðssetningu á öllum vörum sem keyptar eru inn á vegum Nýherja og er stærsta afkomusvið innan Nýherjasamstæðunnar.  Vörusvið annast þjónustu á tölvum og tengdum búnaði auk hljóð- og myndbúnaðar og er ábyrgt fyrir viðhaldsþjónustu á þeim búnaði. Undir Vörusvið heyra vörustjórar, innkaupadeild og dreifingamiðstöð auk verkstæðis.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að Emil er 54 ára viðskiptafræðingur (Cand Oecon) frá Háskóla Íslands og lauk MBA prófi frá George Washington University í Washington DC árið 1984. Hann starfaði hjá IBM á Íslandi fram til ársins 1992, en hefur síðan verið framkvæmdastjóri ýmissa sviða innan Nýherja, nú síðast framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs.