Telenor í Noregi tilkynnti í gær kaupsamning á félögum í Svíþjóð og Danmörku á sviði breiðbandstækni. Að því er fram kemur í hálf fimm fréttum KB banka eru þetta sænska félagið Bredbandsbolaget AB og Cybercity AS í Danmörku.

Bredbandsbolaget AB er annað stærsta fyrirtækið á sviði breiðbandslausna í Svíþjóð. Er félagið með 335.000 áskrifendur og er það um það bil 24% markaðshlutdeild.

Cybercity AS í Danmörku sem Telenor hefur keypt er þriðja stærsta fyrirtækið á þessu sviði í Danmörku með 90.000 áskrifendur, en það er um 8% markaðshlutdeild.

Telenor lítur á þessi kaup sem góðan kost til að eignast sterka stöðu á ört vaxandi markaði á sviði breiðbands og gagnaflutnings.

Fyrirtæki sem reka fastlínu kerfi eins og Telenor, hafa átt í vissum erfiðleikum vegna mikillar verðsamkeppni og er talið að breiðbandið sé eitt af þeim sviðum þar sem nokkur vöxtur er mögulegur.

Telenor telur að með sameiningu þessara félaga megi spara allt að 2,5 ma. norskra króna, eða samsvarandi 25,2 ma.kr., vegna samþættingar á dreifikerfunum í hverju landi. Uppgefið kaupverð á báðum félögunum er um 1.057 m. dollara, eða sem svarar til tæplega 70 ma.kr. Verð bréfa Telenor hefur lækkað 1,82% í dag í kauphöllinni í Ósló