*

miðvikudagur, 8. júlí 2020
Erlent 5. maí 2018 13:29

Telja Bakkavör 46% undirverðlagt

Peel Hunt telur að markaðsvirði Bakkavarar sé því sem nemur 207 milljörðum króna.

Ritstjórn
Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Haraldur Jónasson

Breska verðbréfamiðlunar- og ráðgjafafyrirtækið Peel Hunt mælir með kaupum í matvælaframleiðandanum Bakkavör og metur virði hvers hlutar í félaginu á 2,6 pund. Þetta kemur fram í nýlegu verðmati fyrirtækisins á Bakkavör.

Gengi bréfa í Bakkavör, sem skráð er í Kauphöllina í London, stóð í 1,78 pund við lokun markaða í gær. Verðmat Peel Hunt gefur því til kynna að Bakkavör sé undirverðlagt um rúmlega 46% á markaði.

Þrír aðrir greiningaraðilar hafa gert verðmöt á Bakkavör það sem af er ári. Í janúar síðastliðnum hljóðaði verðmat Kepler Capital Markets á félaginu upp á 2 pund og var mælt með því að fjárfestar héldu bréfum sínum í Bakkavör. Barclays setti verðmiðann á 2,12 pund í febrúar og mælti með kaupum í félaginu. Loks var það mat Berenberg Bank í mars að virði hvers hlutar í Bakkavör væri 2,10 pund og að fjárfestar ættu að halda bréfum sínum í félaginu.

Sjá einnig: Seldu fyrir 5 milljarða í Bakkavör

Bakkavör var skráð á markað í Kauphöllinni í London í byrjun nóvember á síðasta ári og var Peel Hunt meðal ráðgjafa Bakkavarar í skráningarferlinu. Hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um 4,5% frá skráningu og 7,7% frá áramótum. Markaðsvirði félagsins nemur 1.031 milljónum punda, eða tæplega 142 milljörðum íslenskra króna.

Stikkorð: hlutabréf Bakkavör verðmat