Margir erlendir greiningaraðilar trúa að gengi bandaríska dollarans muni lækka gagnvart helstu myntum á árinu. Þetta kemur fram hjá greiningardeild Íslandsbanka.

Þeir benda þó á að margir hafi einnig spáð lækkun dollarans á síðasta ári. En hann hækkaði í staðinn um 3,5%.

Geysilegur viðskiptahalli Bandaríkjanna mun, að öllum líkindum, segja til sín ef vaxtamunur milli Bandaríkjanna og umheimsins eykst ekki að ráði.

Vaxtamunur á milli Evrusvæðis og Bandaríkjanna mun, að öllum líkindum, vera svipaður og á seinnihluta árs. Hjól hagkerfa Evrusvæðisins eru tekin að snúast hraðar og er búist við því að Evrópski seðlabankinn þurfi að hækka vexti til þess að slá á verðbólguþrýsting.

Dollarinn hefði átt að vera hærri gagnvart evru, miðað við vaxtamun segir greiningardeildin, en áhyggjur af viðskiptahalla hafi líklegast dregið úr styrk hans.