Hlutabréf Eimskips eru of dýr, að mati fyrirtækjagreiningar Arion banka. Greiningin hefur birt nýtt mat á félaginu. Þar segir að virðismatsgengið sé 241 króna á hlut samanborið við 252,5 króna gengi á hlut í Kauphöll. Munurinn nemur rétt rúmum 4,5%

Í matinu segir m.a. að í síðasta uppgjör Eimskips hafi mestu munað um gengishagnað sem stuðlaði að því að hagnaður ársins varð meiri en ella og ítreka greinendur að fjárfestar minnki við eignarhlut sinn.

„Nánast frá áramótum hafa okkur fundist hlutir í Eimskip of dýrir og höfum ráðlagt sölu. Þrátt fyrir lækkun virðismats teljum við hluti í Eimskip nú nær því að vera fjárfestingarinnar virði en okkur hefur fundist allt frá áramótum. Við ráðleggjum fjárfestum þó enn að draga úr eignarhlut sínum í Eimskip,“ segir greining Arion banka og bætir við að ný veiðiráðgjöf  Hafró um 10% aukningu á aflamarki þorsks sé til þess fallin að auka flutningsmagn sjávarafurða frá Íslandi sem og bæta nýtingu á geymslurými Eimskips.