Sigur Donald Trump í bandarísku forsetakosningunum í nóvember er einn af stærstu áhættuþáttunum sem að heiminum steðjar um þessar mundir að mati greiningardeildar breska tímaritsins Economist.

Deildin hefur gefið út skýrslu þar sem tíu alvarlegustu áhættuþættirnir eru listaðir og er hættan af mögulegum sigri Trumps metin meiri en ef Bretland yfirgefur ESB eða stríðsátök í Suður-Kínahafi.

Þeir atburðir sem taldir eru fela í sér meiri áhættu fyrir heiminn en sigur Trump eru harkaleg efnahagsleg niðursveifla í Kína, eða að inngrip Rússa í Úkraínu og Sýrlandi leiði til nýs kalds stríðs milli austurs og vesturs.

Greiningardeildin gefur hverjum áhættuþætti einkunn á bilinu 1-25 þar sem áhættan eykst samhliða hækkandi einkunn. Áhættuþættirnir tíu eru eftirfarandi og er einkunnin við hlið hvers liðar:

  • Hörð lending í Kína - 20
  • Nýtt kalt stríð milli austurs og vesturs - 16
  • Sveiflur á gjaldeyrismörkuðum leiða til skuldakreppu í nýmarkaðsríkjum - 16
  • Evrópusambandið byrjar að molna vegna ytri og innri þátta - 15
  • Grikkland yfirgefur ESB og evrusvæðið brotnar upp - 15
  • Donald Trump verður forseti Bandaríkjanna - 12
  • Aukin hætta vegna hryðjuverka öfgafullra múslima leiðir til hliðrunar í hagkerfi heimsins - 12
  • Bretland ákveður að yfirgefa ESB - 8
  • Útþenslustefna Kína leiðir til vopnaðra átaka í Suður-Kínahafi - 8
  • Minnkandi fjárfesting í olíuframleiðslu leiðir til hraðrar verðhækkunar í framtíðinni - 4