Morgunkorn Glitnis bendir á að þróun LIBOR-vaxta um þessar mundir sé að öðru jöfnu góð tíðindi fyrir þau heimili og fyrirtæki sem skulda gengistryggð lán.

Almennt eru vaxtakjör á slíkum lánum beintengd þróun 3ja mánaða LIBOR-vaxta í viðkomandi myntum, og síðan bætt við tilteknu álagi.

Í Morgunkorninu er bent á að sú vaxtaprósenta sem skuldarar gengistryggðra lána greiða breytist því alla jafna sem nemur prósentustigsbreytingu LIBOR-vaxtanna.

Því er almennt spáð að vextir lækki frekar á evrusvæði og í Bretlandi, auk þess sem líklegt er að álag millibankavaxta gagnvart stýrivöxtum minnki jafnt og þétt eftir því sem ótti manna við frekara hrun fjármálastofnana minnkar.

„Því má búast við að vaxtakjör á erlendum lánum landsmanna verði tiltölulega hagstæð næsta kastið, þótt gengisfall krónunnar hafi vissulega sett strik í reikninginn hvað greiðslubyrði af þessum lánum varðar og skapi ákveðna óvissu um greiðslubyrði þeirra í framtíð," segir í Morgunkorninu.