Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur að stjórnlagaþing, sem gert er ráð fyrir að halda í haust, muni kosta á bilinu 1.200 til 1.500 milljónir króna en í dag hófst fyrsta umræða á Alþingi um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, sem flutt er af forsætisráðherra, fjármálaráðherra, varaformanni Framsóknarflokksins og formanni Frjálslynda flokksins.

Í tilkynningu frá Birgi gagnrýnir hann Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að svara ekki spurningum um kostnað við fyrirhugað stjórnlagaþing á Alþingi í dag.

„Það er reyndar með ólíkindum, að forsætisráðherra og fjármálaráðherra skuli flytja mál af þessu tagi án þess að geta gert grein fyrir áætluðum kostnaði vegna þess,“ segir Birgir.

„Þeim er það að vísu ekki skylt samkvæmt þingsköpum, þar sem frumvarpið er flutt sem þingmannafrumvarp en ekki stjórnarfrumvarp, en minna má á að allur undirbúningur málsins fór fram innan stjórnarráðsins og á vegum viðkomandi ráðherra. Þeim hefði því átt að vera í lófa lagið að láta gera kostnaðarmat af þessu tagi áður en málið var lagt fram á Alþingi.“   Birgir segist að þessu tilefni hafa gert tilraun til að áætla þennan kostnað og komist að þeirri niðurstöðu að kostnaðurinn gæti numið milli 1.200 og 1.500 milljónum króna sem fyrr segir.

„ Óvissuþættirnir eru vissulega margir, en í lauslegum útreikningum mínum er miðað við þau útgjöld sem falla munu til miðað við ákvæði frumvarps um stjórnlagaþing, en drög að því eru fylgiskjal með stjórnarskrárfrumvarpinu. Hef ég hliðsjón af kostnaði vegna starfa Alþingis á þessu ári, en ljóst er að stjórnlagaþingið verður skipulagt með hliðsjón af skipulagi Alþingis í öllum megindráttum,“ segir Birgir.   Í útreikningum sínum gerir Birgir ráð fyrir þingfarakaupi fyrir 41 fulltrúa í að minnsta kosti 18 mánuði, launatengdum gjöldum vegna 41 stjórnlagaþingsfulltrúa, kostnaðarreikningi frá þingfulltrúum eða hópum þeirra vegna sérfræðiaðstoðar, kostnaði vegna sérfræðiaðstoðar við forsætisnefnd eða þingið sjálft, þóknun til ólaunaðra fulltrúa almannasamtaka, hagsmunasamtaka og stjórnmálasamtaka vegna setu í starfsnefndum þingsins, launum starfsmanna þingsins , kostnaði vegna húsnæðis, annarrar aðstöðu og rekstrarkostnaðar að öðru leyti.

Hér fyrir neðan má sjá hluta úr greinagerð Birgis til upplýsingar (birt óbreytt):

Eins og sjá má eru óvissuþættirnir margir og munu að hluta til ráðast af ákvörðunum stjórnlagaþingsins sjálfs. Hins vegar er ljóst eins og áður sagði að margt er miðað við skipulag og rekstur Alþingis. Er því nærtækt að líta til útgjalda Alþingis til að fá einhverja hugmynd um kostnaðinn, auðvitað með tilliti til þess að starfsemi stjórnlagaþingsins verður umfangsminni og fulltrúar færri en alþingismenn.

Á árinu 2009 er gert ráð fyrir að svokallaður alþingiskostnaður, sem er allur kostnaður vegna þingmanna, hverju nafni sem hann nefnist, verði 843 milljónir króna.  Þá er gert ráð fyrir að almennur rekstrarkostnaður verði 875,5 milljónir króna.

Ef aðeins eru teknar þessar tvær tölur og ekki hugsað um húsnæðiskostnað, sem er í sérstökum liðum hjá Alþingi, þá er kostnaður vegna þingmanna og reksturs Alþingis rúmlega 1.700 milljónir króna á þessu ári. Ef miðað er við 18 mánuði þá er talan um 2.550 milljónir króna.

Fulltrúar á stjórnlagaþinginu verða 41 eða nálægt því 2/3 af fjölda alþingismanna.  Ef sama hlutfall væri notað til að meta kostnaðinn af stjórnlagaþinginu mætti ætla að niðurstöðutalan gæti orðið rúmlega 1.500 milljónir, einn og hálfur milljarður króna.

Það má auðvitað líka ímynda sér, að miklu meira aðhalds verði gætt í störfum stjórnlagaþings en Alþingis. Þá mætti til dæmis miða við að kostnaður vegna stjórnlagaþings á 18 mánuðum verði helmingi minni en kostnaður vegna Alþingis á jafn löngu tímabili. Miðað við viðmiðunartölurnar að framan gæti kostnaður þá orðið rúmlega 1.200 milljónir króna.

Ég á bágt með að gera mér í hugarlund að kostnaðurinn geti farið mikið lægra, með tilliti til allra þeirra kostnaðarliða sem gert er ráð fyrir vegna stjórnlagaþingsins og getið er um hér að framan. Verður einnig að taka tillit til þess að í viðmiðunartölunum er ekki gert ráð fyrir húsnæðiskostnaði Alþingis, en ljóst er að kostnaður stjórnlagaþings vegna húsaleigu og annars húsnæðiskostnaðar hlýtur að verða verulegur.

Eins er mikil óvissa um þætti eins og sérfræðikostnað, sem getur orðið verulegur eins og dæmin sanna. Þessir þættir geta því vegið upp á móti þeim kostnaði vegna þingfulltrúa og almenns rekstrarkostnaðar, sem kann að vera ofmetinn í útreikningunum hér að framan.

Í þessu ljósi finnst mér ekki ósennilegt að kostnaður við stjórnlagaþingið gæti numið á bilinu 1.200 til 1.500 milljónum króna miðað við 18 mánaða starfstíma. Taki starf þingsins lengri tíma, eins og getur orðið miðað við frumvarpið, verður kostnaðurinn auðvitað þeim mun meiri.

Hér er auðvitað um mjög grófar áætlanir að ræða, byggðar á óljósum forsendum. Sérfræðingar forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hafa áreiðanlega mun betri forsendur til að meta þessa þætti heldur en hér er gert.

Það er því mikilvægt að áætlanir þeirra liggi fyrir meðan málið er til meðferðar á Alþingi. Þær áætlanir verða að vera raunsæjar og taka mið af öllum þeim kostnaðarþáttum sem geta komið til vegna jafn umfangsmikillar starfsemi og hér um ræðir.