Gert er ráð fyrir því að kröfuhöfum Íbúðalánasjóðs (ÍLS) verði kynntar skilmálabreytingar á útgefnum skuldabréfum sjóðsins í sumar. Sjöfn Ingólfsdóttir, varaformaður stjórnar ÍLS staðfestir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að tillögur þessa efnis hafi verið ræddar í stjórninni. Hún vill hins vegar lítið fullyrða um fyrirhugaðar breytingar. Moody's segir að efnislegar breytingar á eignasafni ÍLS þurfi að koma til eigi lánshæfiseinkunn ÍLS að batna.

Bloomberg ræðir m.a. við Kára Arnór Kárason, framkvæmdastjóra hjá Stapa lífeyrissjóði, að hann telji líklegt að breytingarnar verði gerðar í sumar og búist kröfuhafar sjóðsins við því að svo verði raunin. Þetta segir hann rólegan tíma, fólk almennt í sumarfríi, þingmenn sömuleiðis og blaðamenn líka. Hann segir hins vegar að stjórn ÍLS hafi ekki komið að máli við lífeyrissjóðinn vegna breytinganna.