Skipulagsstofnun telur áhrif kísilverksmiðju PCC á iðnaðarsvæði á Bakka við Húsavík neikvæð, verksmiðjan rýra loftgæði, hafi neikvæð áhrif á gróður og haft í för með sér talsvert  neikvæð áhrif á afmarkað hag- og strandsvæði við Bakkakrók í Norðurþingi. Stofnunin telur að verði veitt leyfi til byggingar verksmiðjunnar verði að liggja fyrir áhættumat vegna starfseminnar sem byggi á nýjustu gögnum um jarðskjálftavá á svæðinu auk þess að niðurstöður úr rannsóknum á lífríki haf- og strandsvæðis við Bakkakrók liggi fyrir áður en ráðist verður í framkvæmdir við sjókælingu verði hún fyrir valinu. 

Í áliti Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum kísilverksmiðjunnar segir m.a. helstu neikvæðu áhrifin felist í ásýndarbreytingum og ónæði sem fyrirsjáanlegt er að verði fyrir ábúendur í nágrenni verksmiðjunnar en kísilmálmverksmiðjan verður hluti af enn frekari breytingum á landnotkun á svæðinu, sem fela í sér iðnaðarsvæði á Bakka.

Losun frá verksmiðjunni rýrir loftgæði

Á móti segir að styrkur helstu losunarefna frá verksmiðjunni út í andrúmsloft verði undir viðmiðum viðeigandi reglugerða, m.a. með tilliti til heilsuverndarsjónarmiða. Engu að síður telur stofnunin að verksmiðjan muni rýra loftgæði í nágrenni verksmiðjunnar og að áhrifin verði nokkuð neikvæð. Áhrif á fugla eru þó talin verða óveruleg nema valkostur um sjókælingu verði fyrir valinu, en þá telur Skipulagsstofnun að áhrifin geti orðið verulega neikvæð ef framkvæmdir verða að vori til.

Í matinu segir:

„Skipulagsstofnun telur brýnt að áform framkvæmdaraðila um vöktunarrannsóknir um áhrif verksmiðjunnar á nærumhverfi sitt og til að sannreyna útreikninga mats á umhverfisáhrifum gangi eftir og þær verði unnar í góðu samstarfi við nágranna og aðra hagsmunaaðila. Er þetta þeim mun brýnna ef áform ganga eftir um að fleiri sambærilegar verksmiðjur muni starfa á svæðinu. Skipulagsstofnun telur mjög brýnt að tímanlega sé hugað að hentugu urðunarsvæði sem nýtist starfseminni til framtíðar og þeim ráðstöfunum sem framkvæmdaraðili boðar til að draga úr áhættu vegna starfsemi kísilverksmiðjunnar.“