Erlendur Magnússon, sem ákærður hefur verið fyrir innherjasvik í starfi sínu sem framkvæmdastjóri hjá Glitni, telur að embætti sérstaks saksóknara hafi brostið heimild til að gefa út  ákæru á hendur sér. Það er á þeirri forsendu sem Jóhannes Rúnar Jóhannsson lögmaður Erlendar og eignarhaldsfélagsins Fjársjóðs krafðist frávísunar fyrir þeirra hönd þegar mál gegn þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Erlendur er ákærður fyrir að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar sem  sérstakur saksóknari telur að hann hafi komist yfir þegar eignarhaldsfélagið Fjársjóður, sem var í eigu hans og konu hans, seldi bréf fyrir 10 milljónir króna að markaðsvirði vorið 2008.

Var búinn að fella málið niður

Í bókun sem fylgdi frávísunarkröfunni segir að afstaða ákærðu hafi meðal annars byggt á því að sérstakur saksóknari hafi hinn 12. mars 2013 tekið þá ákvörðun að fella málið niður þar sem embættinu þótti það sem fram hafði komið við rannsókn málsins ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Erlendi og verjanda hans hafi þá þegar verið tilkynnt þessi ákvörðun með bréfi. Þá segir jafnframt í bókuninni að málið hafi verið til meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara í u.þ.b. tvö ár og átta mánuði þegar ákvörðun um að fella málið niður hafi verið tekin.

„Heyrðu hvorki ákærði né tilnefndur verjandi hans af málinu fyrr en hinn 20. júní 2013 er saksóknarfulltrúi hjá embætti sérstaks saksóknara hafði samband við tilnefndan verjanda ákærða Erlendar símleiðis, tæpum þremur árum eftir að rannsókn málsins hófst, og tilkynnti honum að ríkissaksóknari hefði fellt úr gildi að hluta ákvörðun embættis sérstaks saksóknara frá 12. mars 2013,“ segir í bókuninni.

Telur ný gögn ekki hafa komið fram

Þessi ákvörðun hafi svo frekar verið staðfest með tölvupósti fulltrúans til verjanda ákærða Erlendar sama dag. Þriggja mánaða frestur til endurskoðunar á ákvörðun embættis sérstaks saksóknara frá 12. mars hafi þá verið liðinn og ákærði Erlendur hafi þar með haft réttmætar væntingar til þess að málinu væri endanlega lokið. Ákæra hafi síðan verið gefin út í málinu hinn 2. ágúst 2013, án þess að nokkur ný gögn hefðu komið fram eða að forsendur hafi breyst efnislega.

Í bókuninni segir að Erlendur telji að framangreind meðferð málsins feli í sér brot gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, svo og tilgreind ákvæði laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og að auki ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þeim sökum hafi embætti sérstaks saksóknara brostið heimild til að gefa út ákæru í málinu og því beri að vísa ákærunni frá dómi.

Þá er í lok bókuninni færð rök fyrir því að meðhöndla eigi ákæru á hendur Fjársjóði ehf. með sama hætti og ákæru á hendur ákærða Erlendi að þessu leyti, enda byggi ákæra á hendur Fjársjóði ehf. á rannsókn embættis sérstaks saksóknara í máli ákærða Erlendar.