Mjög ólíklegt er að Bandaríki lendi í greiðslufalli þótt bandarískir þingmenn nái ekki saman um að hækka skuldaþakið svokallaða um miðjan mánuðinn, að mati Raymond McDaniel, forstjóra alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody's.

Mikill vandræðagangur hefur skapast í Bandaríkjunum síðustu daga þar sem bandarískir þingmenn gátu ekki lokað fjárlögum en í síðustu viku var fjölda opinberra stofnana og fyrirtækja lokað af þeim sökum. Mörg hundruð þúsund starfsmenn þeirra, s.s. hjá söfnum og ýmsum stofnunum, hafa setið heima í launalausu leyfi síðan þá. Staðan er óbreytt í dag.

Þessu til viðbótar liggur fyrir að breyta þarf lögum fyrir 17. október næstkomandi um það hversu mikið bandaríska ríkið getur tekið að láni til að gera landinu kleift að standa við skuldbindingar sínar. Nái það ekki fram að ganga hefur verið óttast að bandaríska ríkið geti ekki greitt af lánum sínum. Það muni svo hafa mjög neikvæð áhrif á fjármálamarkaði um heim allan.

Raumond McDaniel, forstjóri Moody's, segir hins vegar í samtali við CNBC-fréttastofuna ólíklegt að bandaríska ríkið muni láta hjá líða að greiða af skuldum sínum.