Abby Joseph Cohen, formaður Global Market Institute sem er í eigu Goldman Sachs, segir lækkanir á bandaríska hlutabréfamarkaðnum vera tilfinningalegt viðbragð fjárfesta fremur en raunverulegt hættumerki. Að hennar mati er staða bandaríska efnahagsins sterk, en lækkanirnar dylja þá staðreynd.

Cohen er þeirrar skoðunar að best sé að fjárfesta í hlutabréfum fyrir árið 2016, en segist í viðtali við Bloomberg í Tel Aviv ekki vera jafn viss hvað skuldabréf varðar. S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 10% frá því í desember 2015. Hægt er að sjá viðtalið við Cohen í heild sinni hér.

„Undirliggjandi hlutar hagkerfisins eru í raun og veru í frekar góðu standi,” sagði Cohen. „Við erum að sjá hagvöxt og útþenslu hagkerfisins. Við erum einnig að sjá hagnað fyrirtækja aukast talsvert.”

Abby Joseph Cohen er þekkt í fjármálaheiminum fyrir að hafa spáð réttilega til um uppgangsmarkað tíunda áratugs síðustu aldar snemma á áratugnum. Þó mistókst henni að spá fyrir um netbóluna svokölluðu snemma um aldamótin, sem og efnahagshrunið og kreppuna 2008.