Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að honum virðist mál Finns Ingólfssonar og Helga S. Guðmundssonar vera sambærileg öðrum málum þar sem dæmt var fyrir markaðsmisnotkun. Þetta sagði Vilhjálmur í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.

Fjallað var um viðskipti Finns Ingólfssonar og Helga S. Guðmundssonar í Kastljósi í gær, þar sem greint var frá viðskiptum fleiri Íslendinga gegnum aflandsfélög sem sett voru á fót í skattaskjólum gegnum lögfræðifyrirtækið Mossack Fonseca.

„Ég er að tala um sölu Landsbankans  á hlutabréfum til félags sem virðist hafa verið í eigu Finns Ingólfssonar og Helga Guðmundssonar. Það er alveg samstofna þeim dómsmálum sem hér hafa gengið,” segir Vilhjálmur.

„Bankinn er að koma bréfum sem hann á og hefur keypt til að halda uppi verði af sinni hendi til að hanga fyrir neðan tíu prósent eign. En bankinn gleymdi því líka að hann mátti hvorki eiga né taka að veði meira en tíu prósent og var kominn langt upp fyrir það. En það er eins og ég segi margbúið að dæma í svona málum hérna.“