„Við teljum að misskilningurinn liggi í því að undanþágubeiðnin eins og hún er lögð fram hafi ekki áhrif á greiðslujöfnuð Íslands,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. Slitastjórnin hafði óskað eftir undanþágu frá gjaldeyrishöftum í tengslum við nauðasamning bankans. Beiðnin var send Seðlabankanum í nóvember í fyrra en svarið barst frá Seðlabankanum 23. september síðastliðinn þar sem undanþágubeiðninni er hafnað.

Eins og VB.is sagði frá í morgun sagði slitastjórnin á vef sínum ákveðins misskilnings gæta í svarbréfi Seðlabankans. Hins vegar fagni slitastjórnin því að í Seðlabankanum sé vilji til að ræða þau mál sem geti haft áhrif á fjármálalegan stöðugleika efnahagslífsins í tengslum við uppgjör Glitnis. Ekki kemur fram í bréfinu um hvaða misskilning er um að ræða.

Steinunn segir í samtali við VB.is :

„Misskilningurinn er í rauninni sá að í þessu bréfi kemur fram að undanþágubeiðninni sem við settum fram í nóvember á síðasta ári er að svo stöddu hafnað þar sem hún er ekki talin uppfylla þau skilyrði sem sett eru.“

Skilyrðin eru m.a. þau að undanþága frá gjaldeyrishöftum hafi ekki áhrif á fjármálastöðugleikann.

Seðlabankinn ætlar að birta bréfið

Steinunn vildi ekki tjá sig nánar um efni bréfsins að svo stöddu eða eftir að afrit af svarbréfi Seðlabankans hefur verið birt. VB.is spurðist fyrir um það hvort og hvenær Seðlabankinn ætli að birta afrit af bréfinu. Samkvæmt svari úr bankanum var óskað eftir leyfi frá slitastjórn Glitnis um birtingu bréfsins. Slitastjórnin varð við þeirri ósk og er stefnt að því að birta bréfið á vef Seðlabankans eftir lokun markaða í dag, þ.e. eftir klukkan 16.