Hagnaður Landsvirkjunar nam 10,5 milljörðum króna í fyrra og hefur ekki verið meiri í sex ár. Þá hafa skuldir fyrirtækisins lækkað um 107 milljarða króna á sama tíma.

Afkoma Landsvirkjunar hefur um árabil verið nátengd afkomu álvera landsins enda kaupa þau mikla raforku af fyrirtækinu og hefur verðið að hluta verið tengd heimsmarkaðsverði á áli. Nú ber svo við að áhætta fyrirtækisins vegna álverðsteningar hefur minnkað mikið undanfarin ár. Árið 2009 voru um  tveir þriðju hlutar tekna Landsvirkjunar með tengingu við álverð en í fyrra var um þriðjungur teknanna með álverðstengingu. Þá hefur fyrirtækið einnig gert afleiðusamninga til að treysta tekjugrundvöll sinn og drag úr sveiflum. Í fyrra námu innleystar áhættuvarnir tengdar álverði tæpum 11 milljónum dollara eða 1.370 milljónum króna.

„Slíkir samningar fela í flestum tilvikum í sér að álverð er fest á ákveðnu bili. Fyrirtækið verður því af tekjum ef álverð hækkar, en tryggir um leið betra sjóðstreymi ef álverð lækkar," segir í ársskýrslunni. „Fjárstýring hefur heimild til að verja allt að 100% af álverðsáhættu næsta árs og hlutfallslega minna næstu ár á eftir, en ekki er gerð krafa um lágmarksvarnir. Settar hafa verið inn varnir fyrir um 50% af áætluðu sjóðstreymi ársins 2016 og um 5% fyrir árið 2017."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .