Lagafrumvarp sem lagt var fyrir viðskipta- og tækniráð öldungaráðs þings Indiana gæti leitt til þess að Tesla Motors neyðist til að selja bifreiðar sínar gegnum umboð eins og flestar aðrar bílasölur gera nú þegar.

General Motors er á bak við frumvarpið, en að mati fyrirtækisins er ósanngjarnt að Tesla fái að selja bíla sína gegnum sérreknar bílasölur sem sérhæfa sig í Tesla-bifreiðum. Þegar hefur General Motors ýtt slíkri löggjöf í gegnum þing Michigan, en Tesla er óheimilt að selja gegnum einkasölur þar.

General Motors mun hefja sölu á rafbíl sínum, Chevrolet Bolt, seinni part þessa árs, og ætla sér því að fara í harða samkeppni við rafbíl Tesla Motors sem kallaður er Model 3. Því er ljóst að afskipti GM af löggjafarvaldinu eru í þeim tilgangi að breyta leikreglunum sem Tesla Motors hefur hingað til spilað við.