Rafbílaframleiðandinn Tesla hagnaðist um 3,3 milljarða dali á fyrsta ársfjórðungi, sem er methagnaður hjá félaginu. Þetta kemur fram í grein Wall Street Journal. Hagnaður félagsins margfaldaðist á milli ára, en hann nam rúmum 400 milljónum dala á sama ársfjórðungi í fyrra.

Tekjur Tesla námu 18,8 milljörðum dala á ársfjórðungnum, sem er 80% meira en á sama ársfjórðungi í fyrra þegar tekjurnar námu 10,4 milljörðum dala.

Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, sagði að félagið myndi framleiða meira en 1,5 milljónir bíla á árinu. Það yrði 60% aukning frá árinu 2021. Bílaframleiðandinn afhenti 310 þúsund bíla á fyrsta ársfjórðungi. Það er mikil aukning frá sama ársfjórðungi í fyrra þegar félagið afhenti um 180 þúsund bíla.

Musk bendir á að hækkandi innflutningskostnaður hefði valdið miklum erfiðleikum, en verð á hrávörum eins og lithíum og nikkel hefur hækkað mikið að undanförnu. „Ég held að verðbólgan sé stórlega vanmetin," segir Musk. Samkvæmt Telegraph mun Musk fá 23 milljarða dali í bónusgreiðslur fyrir góðan árangur á ársfjórðungnum.

Gengi hlutabréfa Tesla hefur hækkað um rúm 10% frá opnun markaða í dag. Gengið stendur í tæpum 1.080 dölum á hlut.