Bandaríska umferðaröryggisstofnunin (NHTSA) sendi Tesla erindi í gær, miðvikudag, hvar rafbílaframleiðandinn er hvattur til þess að innkalla um 158 þúsund bifreiðar vegna hugsanlegra öryggisvandamála. Um er að ræða Model S lúxusbifreiðar og Model X sportjeppa.

Ástæða erindisins mun vera að snertiskjárinn í sumum bifreiða ofangreindra tegunda getur bilað eftir nokkurra ára notkun, sem hefur áhrif á öryggisvirkni á borð við móðueyðingu og varamyndavélar. Mun vandamálið vera rakið til þess að minniskubbur snertiskjásins fyllist.

Tesla er ekki skylt að innkalla bifreiðarnar, en verði það ekki gert mun rafbílaframleiðandinn þurfa að rökstyðja ákvörðun sína skriflega. Í framhaldi getur NHTSA farið fram á innköllun fyrir dómstólum.

Verði bifreiðarnar innkallaðar mun það verða ein stærsta öryggisráðsráðstöfun Tesla til þessa. Samkvæmt frétt WSJ er áætlað að innköllunin muni kosta allt að 500 milljónir dollara, sem samsvara um 65 milljörðum íslenskra króna.

Elon Musk, forstjóri Tesla, hefur ekki tjáð sig um málið enn sem komið er.