Svo kann að fara að bandaríski bílaframleiðandinn Tesla Motors hefji framleiðslu á rafmagnspallbílum á næstu árum. Þetta segir Elon Musk, stofnandi og forstjóri rafbílaframleiðandans. Pallbílar Tesla myndu keppa við sambærilega bíla fram Ford. Pallbíll er á teikniborðinu hjá Tesla og er vinnuheitið Model X.

Tesla framleiðir aðallega lúxuskerrur í eigin nafni og hefur salan tekið kipp upp á síðkastið. Þar á meðal hefur fyrirtækið selt 20 bíla hér á landi. Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, á einn slíkan og hrósaði honum í hástert í samtali við VB Sjónvar p á dögunum.

Bandaríska fréttastofan CNN segir að Musk hafi verið spurður að því á ráðstefnu BusinessInsider í gær hvort til standi að framleiða pallbíla undir merkjum Tesla. Hann svaraði því til að horfa verði á það hvernig bílar séu að seljast þessa dagana. Pallbílar eru þar efstir á blaði og því myndi framleiðsla á þeim verða ofan á. Ford hefur selt 560 þúsund pallbíla í F-seríunni á fyrstu níu mánuðum ársins. Á sama tíma hefur Tesla selt 14 þúsund bíla af gerðinni Model S.

Ekki er þar með sagt að stutt sé í að rafpallbíll Tesla muni líta dagsins ljós á næstu misserum. Fimm ár eru í að eitthvað í þá átt muni verða að veruleika, að sögn Musk.