Samkvæmt Morgunkorni Glitnis hefur Teymi keypt allt hlutafé í Landsteinum Streng ehf. og Hugi Ax ehf. fyrir um 3.4 ma.kr. Kaupverðið var reitt fram með um 34% hlut í Hands Holding, yfirtöku á skuldum og með handbæru fé úr sjóðum Teymis. Fyrir kaupin á félögunum átti Teymi um 48,7% hlut í Hands Holding en heldur eftir um 14,5% hlut í félaginu og er bókfært verð um 101 mkr. Skuldbindingar Teymis vegna Hands Holding lækka úr 7,5 mö.kr. í 2,7 ma.kr.

Í fréttatilkynningu sem send var frá félaginu í morgun kom fram að gjaldfærsla Teymis vegna Hands Holding væri um 1,1 ma.kr. og færist hún í bókum félagsins á þriðja fjórðungi. Landsteinar Strengur og Hugur Ax verða sameinuð við rekstur Teymis þann 1. október 2007.

Áætluð velta hjá Landsteinum Streng og Hugi Ax á ári nemur um 2,3 mö.kr. og er áætluð EBITDA um 350 m.kr. (15,2%). Miðað við kaupvirðið 3,4 ma.kr. og EBITDA hagnað um 350 m.kr. má gera ráð fyrir að EV/EBITDA margfaldarinn sé um 10,3 sem er í hærra lagi. Því má gera ráð fyrir að stjórnendur Teymis sjái talsverða möguleika í endurskipulagningu á rekstri félaganna.

Teljum við að kaupin á Landsteinum Streng og Hugi Ax falli nokkuð vel að rekstri Teymis. Starfsemi félaganna markast af sölu á hugbúnaði og þjónustu. Viðskiptamannagrunnur Landseina Strengs og Hugar AX samanstendur af stórum sem smáum fyrirtækjum hérlendis og teljum við að með kaupunum hafi Teymi aukið við viðskiptamannagrunn sinn. Þannig má gera ráð fyrir aukinni krosssölu á milli eininga á komandi misserum hjá Teymi og jákvæðum áhrifum á tekjur félagsins.