Teymi þarf að greiða alls 70 milljónir króna í stjórnvaldssekt samkvæmt úrskurði Samkeppniseftirlitsins en jafnframt verður félaginu gert að selja frá sér eignahlut sinn í Tali (IP fjarskiptum).

Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins í dag en með ákvörðun sinni í dag lýkur athugun Samkeppniseftirlitsins sem hófst með húsleit á starfstöðvum Teymis, Og-fjarskipta og Tals þann 7. janúar sl.

Í ákvörðuninni er komist að þeirri niðurstöðu að Teymi og Og-fjarskipti hafi brotið gegn samkeppnislögum og skilyrðum ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins með eftirfarandi aðgerðum á árinu 2008:

• Samstilltum aðgerðum og samkomulagi við IP fjarskipti ehf. (Tal) sem miðaði að því að draga úr samkeppnislegu sjálfstæði Tals og vinna gegn því að Tal keppti við Og fjarskipti.

• Með tilteknum ákvæðum í samningi Tals við Og fjarskipti um aðgang að farsímaneti, dags. 11. apríl 2008. Ákvæði þessi voru til þess fallin að draga úr samkeppni á markaði.

Þá kemur fram að á meðan á sölumeðferð stendur er mælt fyrir um aðgerðir til að tryggja samkeppnislegt sjálfstæði Tals gagnvart Og-fjarskipti.

Játuðu brot á samkeppnislögum

Fram kemur á vef Samkeppniseftirlitsins að forsvarsmenn Teymis hafi snúð sér til stofnunarinnar og óskað eftir viðræðum um sátt vegna málsins.

„Undirgengust Teymi og Og-fjarskipti sátt sem liggur tilgrundvallar fyrrgreindri ákvörðun,“ segir á vef stofnunarinnar.

„Við mat á sektarfjárhæð er m.a. horft til þess að umrædd fyrirtæki höfðu frumkvæði að sáttarviðræðum við Samkeppniseftirlitið og hafa nú undanbragðalaust játað brot sín á samkeppnislögum.“

Tal þarf hins vegar ekki að greiða sekt þar sem forsvarsmenn tals sneru sín til Samkeppniseftirlitsins í byrjun desember 2008 og óskuðu eftir því að veita upplýsingar um framangreind brot.

Sjá nánar á vef Samkeppniseftirlitsins.