„Það gagnast engum að fara að hefna sín á tilverunni,“ sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, á fundi um forsendur kjarasamninga nú í morgun. Þannig svaraði Vilhjálmur aðspurður um mat á stöðu kjarasamninga.

Vilhjálmur sagði að yrðu samningar opnaðir núna mætti eins búast við að atvinnulífið reyndi að draga í land með launahækkanir. „Við teljum að staða fyrirtækja sé verri nú, til að takast á við launahækkanir, en við bjuggumst við þegar kjarasamningar voru undirritaðir,“ sagði Vilhjálmur. Endurskoðun kjarasamninga fer fram í janúar en geri hvorugur aðili athugasemdir gilda samningarnir fram í janúar árið 2014. Samtök atvinnulífsins segjast ekki ætla að eiga frumkvæði að uppsögn kjarasamninga.

Ekkert við ríkisstjórnina að ræða

Forsvarsmenn SA sögðust á fundinum í morgun auðveldlega geta tekið undir með verkalýðshreyfingunni um að „orð skuli standa“. „Alþýðusambandið er nú að ganga í gegnum sama ferli og við fyrir ári síðan,“ sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA og rifjaði upp að samtökin sögðust þá ekki ætla að eiga frumkvæði að samskiptum við ríkisstjórnina enda teldu þau lítinn hag af því. Helst sögðust þeir Vilmundur og Vilhjálmur geta fundið að því að yfirvöld hafi ekki staðið við fyrirheit um auknar fjárfestingar í atvinnulífinu. Þetta telja þeir beint og óbeint orsök þess að hvorki verðbólgu- né gengisforsenda kjarasamninga hafa staðist.

„Þegar ríkisstjórnin segist ekki hafa skrifað upp á ákveðna verðbólgu þá stenst það auðvitað ekki,“ sagði Vilhjálmur. „Í kjarasamningum er miðað við verðbólgumarkmið Seðlabanka sem er samkvæmt samkomulagi yfirvalda og Seðlabankans,“ bætti hann við og sagði að skrýtið væri ef vinnumarkaðurinn gerði samninga miðað við hærri tölur.

Þörf á að breyta aðferðunum

Vilhjálmur og Vilmundur sögðust í góðum samskiptum við ASÍ og héldu til fundar við samtökin strax að loknum blaðamannafundi. „Það eru allir aðilar vinnumarkaðar sammála um að núverandi samningsfyrirkomulagi þarf að breyta,“ sagði Vilhjálmur. Hann nefndi fyrirkomulag á öðrum Norðurlöndum í því samhengi og sagði að við kjarasamningagerð væri nauðsynlegt að miða við svigrúm hagkerfisins til launahækkana. Vænlegast til vinnings væru stöðugar en viðráðanlegar launahækkanir.