*

mánudagur, 6. júlí 2020
Innlent 29. nóvember 2019 15:28

Þakkardagurinn skilaði þriðjungi meira

Takk dagur Fossa Markaða skilaði rétt rúmlega 11 milljónum króna í gær til Rjóðursins. 34% meira en fyrir ári síðan.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Starfsfólk Fossa markaða safnaði í gær, sama dag og Þakkargjörðarhátíðin er haldin í Bandaríkjunum, rétt rúmlega 11 milljónum króna á fimmta árlega Takk degi félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um snýst góðgerðardagurinn um að félagið, ásamt samstarfsaðilum setji allar þóknanartekjur af viðskiptum dagsins til valins góðgerðarstarfs en að þessu sinni var Rjóðrið, sem sinnir lanveikum og fötluðum börnum fyrir valinu.

Aukningin er ríflega 34% frá um 8,2 milljónum króna sem safnaðist á síðasta ári, en fjármununum er ætlað að fara í uppbyggingu aðstöðu fyrir eldri börn í Rjóðrinu.

„Við erum djúpt snortin yfir viðtökum ykkar á Takk daginn. Þúsund þakkir, aftur slógum við met fyrra árs. Alls söfnuðust 11.001.795 kr. sem við munum afhenda forsvarsmönnum Rjóðursins. Er von okkar að afraksturinn muni verða hvatning til að bæta þjónustu við langveik og fötluð ungmenni og fjölskyldur þeirra.
Við viljum nýta tækifærið og færa viðskiptavinum okkar sem tóku þátt í Takk deginum 2019 bestu þakkir. Við hlökkum til að endurtaka leikinn með ykkur að ári.
Með þakkarkveðjum,
Starfsfólk Fossa markaða“