„Sú ákvörðun stjórnvalda að afnema ekki gjaldeyrishöft fyrr en 2015 veldur vissulega vonbrigðum,“ sagði Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, á aðalfundi bankans. Hann sagði skiljanlegt að stjórnvöld vilji stíga varlega til jarðar í þessum efnum. „En vonandi tekst okkur að flýta ferlinu og losa okkur við höftin fyrr en ella.

Friðrik sagði að til þess að flýta fyrir afnámi gjaldeyrishafta og koma í veg fyrir fjármagnsflótta frá Íslandi þurfi innlendum og erlendum fjárfestum að standa til boða góðir fjárfestingarkostir. Eitt mikilvægasta verkefnið sé því að blása lífi í hlutabréfamarkaðinn.