Fjármálaeftirlitið hefur staðfest að William Demant Invest, stærsti hluthafi Össurar, þarf ekki að leggja fram yfirtökutilboð þrátt fyrir að hafa aukið hlut sinn um 2,4 þann 11. febrúar sl. Félagið á nú 39,58% hlutafjár.

Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins segir að með kaupunum hafi eignarhlutur félagsins farið í 39,58% „og er hann því innan þeirra marka sem félagið er læst við. Af þeirri ástæðu er félagið ekki yfirtökuskylt skv. lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.“

Fjallað er um málið í Vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa í dag. Aðalfundur Össurar verður haldinn næstkomandi föstudag. Þar verður tekin fyrir tillaga um að taka hlutabréf félagsins úr viðskiptum í Kauphöll Íslands, en félagið er tvískráð hér og í Kaupmannahöfn. „Væntanlega verður tekist á um það á fundinum þar sem innlendir hluthafar félagsins eru ekki á eitt sáttir um afskráninguna. Þá liggur fyrir tillaga um að stjórn félagsins verði óbreytt frá fyrra starfsári,“ segir í markaðsfréttum.