Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segist ekki sjá ástæðu til þess að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Þetta kom fram í þætti Gísla Marteins, Sunnudagsmorgni á RÚV, fyrr í morgun.

Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknar, sagði ekki þörf á kosningu um framhald viðræðna þar sem ekki stæði til að ganga í sambandið. „Við sögðum að við myndum aldrei ganga í Evrópusambandið nema að undangenginn kosningu og við ætlum ekkert að ganga í Evrópusambandið. Þannig að það þarf enga kosningu,“ sagði Sigrún.

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagðist í þættinum vonast til að stjórnaliðar endurskoðuðu afstöðu sína til kosninganna.