Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, hvatti Illuga Gunnarsson til þess í dag að draga úr þeim hækkunum innritunargjalda í opinbera háskóla sem áformuð eru.

„Ég vil inna hann eftir afstöðu til þess að stór hækkun innritunargjalda í háskóla verði dregin til baka eða verulega dreigð úr henni,“ sagði Steingrímur og beindi orðum sínum að menntamálaráðherra. Hann benti á að ríkisstjórnin hefði gefið aðilum vinnumarkaðarins fyrirheit um að draga ýmsar hækkanir á kostnaðarliðum til baka til að leggja sitt af mörkum til að halda verðbólgu innan viðmiðunarmarka Seðlabanka Íslands. Sagði Steingrímur að í efnahags- og viðskiptanefnd í gær hefði komið fram að það eigi eftir að velja þá kostnaðarliði sem draga á til baka.

„Það væri bragur af því ef hæstvirtur mennta- mg menningarmálaráðherra beitti áhrifum sínum innan ríkisstjórnarinnar og myndi sækja það fast að hluti af framlagi ríkisvaldsins sem gæti falið í sér um 600 milljóna króna tekjulækkun ríkisvaldsins á þessu ári gengi til baka,“ sagði Steingrímur.

Illugi sagði að háskólarnir sendu menntamálaráðuneytinu rökstuðning og ósk um heimild til að hækka innritunargjöld. Farið væri yfir þann rökstuðning þegar ákvörðun væri tekin í ráðuneytinu. Ég hefði talið að það væri veigameiri ákvörðun að víkja frá röksemdarfærslu skólana sjálfa hvað þetta varðar,“ sagði Illugi.

Steingrímur svaraði því þá til að málflutningur Illuga væri gallaður að þvi leyti til að dregið hefði verið úr framlögum ríkisins til háskólanna sem samsvaraði hækkun innritunargjaldanna.