Þingmenn ræddu um skýrslu Hagfræðistofnunar um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og stöðu ESB á Alþingi til rúmlega þrjú í nótt. Fréttastofa RÚV segir Ögmund Jónsson, þingmann VG og fyrrverandi ráðherra, hafa sagt það mikinn miskilning og í raun rangt að halda því fram að Íslandi standi til boða undanþágu frá skilyrðum ESB. Verið sé að villa um fyrir fólki að halda því fram að kjósa beri um það að halda viðræðunum áfram.

Skýrsla Hagfræðistofnunar var kynnt snemma í síðustu viku og mælti Gunnar Bragi Sveinsson fyrir henni í vikulokin. Á föstudag ákvað ríkisstjórnin svo að slíta beri aðildarviðræðum við ESB. Gunnar Bragi hefur hins vegar enn ekki mælt fyrir um þingsályktunartillögu um viðræðuslitin þar sem umræður um ESB og skýrslu Hagfræðistofnunar eru enn á dagskrá þingfundar sem hefst klukkan 10:30 í dag.

Um 14% kosningabærra manna eða 34 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort aðildarviðræðum við ESB verði haldið áfram.