Með heimsókn Angelu Merkel, kansalara Þýskalands, til Grikklands eru send þau skilaboð að Þjóðverjar vilja ekki að Grikkir yfirgefi evrusamstarfið. Þetta segir Gavin Hewitt , ritstjóri Evrópumála hjá breska ríkisútvarpinu (BBC). Hann bendir þó á, að Grikkir verði að halda aftur af sér, brjótist út ólæti á götum Aþenu vegna heimsóknarinnar og fundar lánardrottnar landsins í borginni, þá muni Þjóðverjar missa alla trú á Grikkjum. Á sama tíma og Þjóðverjar leggja á sig auknar byrðar vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu þá kenna Grikir Þjóðverjum um hvernig fyrir þeim er komið, ekki síst þann harkalega niðurskurð sem landsmenn hafa þurft að taka á sig til að koma landinu á réttan kjöl.

Nýjustu aðhaldsaðgerðirnar hljóða upp á 13 milljarða evra niðurskurð á ríkisútgjöldum. Þetta er að ósk lánardrottna landsins sem gera það að kröfu fyrir næsta skammt stjórnvalda af björgunarlánum.

Kanslarinn þýski hefur ekki komið í opinbera heimsókn í fimm ár. Merkel fékk heldur óblíðar móttökur þegar hún kom til Grikklands. Boðað hefur verið til mótmæla víða. Lögregluyfirvöld hafa hins vegar slegið á hendur þeim og bannað mótmælastöður. Óvíst er hvort það gengur eftir en sjö þúsund lögreglumenn eru á vakt í Aþenu til að koma í veg fyrir að Merkel og aðrir fulltrúar Grikklands verði truflaðir þegar þeir setjast yfir ríkisreikning landsins.