Dr. Þóranna Jónsdóttir hefur verið ráðin deildarforseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík (HR). Þóranna tekur við starfinu 1. maí næstkomandi af dr. Friðrik Má Baldurssyni sem verður áfram prófessor við deildina.

Fram kemur í tilkynningu frá HR að Þóranna hefur starfað sem framkvæmdastjóri stjórnunar og rekstrar HR frá árinu 2011. Þóranna lauk doktorsprófi frá Cranfield University í Bretlandi árið 2011 og sérhæfði sig í ábyrgð og skyldum stjórnarmanna. Þá er hún einnig með MBA-gráðu frá IESE viðskiptaháskólanum í Barcelona.

Á árunum 2007-2011 starfaði Þóranna sem framkvæmdastjóri hjá Auði Capital og árin 2005-2007 sem framkvæmdastjóri hjá Veritas/Vistor. Þóranna hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, auk þess að veita forstöðu nefnd á vegum Viðskiptaráðs, Kauphallarinnar og Samtaka atvinnulífsins um endurskoðun á Leiðbeiningum um stjórnarhætti.

40 sóttu um stöðuna

Staða forseta viðskiptadeildar var auglýst laus til umsóknar í desember síðastliðnum og sóttu 40 einstaklingar um stöðuna, að því er fram kemur í tilkynningunni frá HR. Matsnefnd var skipuð til að meta umsóknir, en hana skipuðu Björn Þór Jónsson, forseti tölvunarfræðideildar sem var formaður nefndarinnar; Eric Weber, prófessor og aðstoðarrektor við IESE í viðskiptaháskólann; Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptadeild; og Hjörleifur Pálsson, fyrrverandi fjármálastjóri Össurar sem einnig situr í háskólaráði HR.