Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra horfir til þess að taka við formannsstól flokksins þegar Bjarni Benediktsson ákveður að láta gott heita. „Stutta svarið er já,“ segir Þórdís í nýlegum hlaðvarpsþætti Chat after Dark, spurð hvort hún hafi áhuga á formannsstólnum.

„Já, ég máta mig við það. Já, ég hef metnað til þess. Já, ég sé mig fyrir mér þar og er tilbúin,“ segir Þórdís.

„Við erum náttúrulega með formann sem stendur sig vel í sínu starfi en hefur verið lengi og verður ekki endalaust. Þá losnar stólinn og ég veit að ég verði ekki sú eina sem [mun sækjast eftir honum].“

Þórdís, sem hefur verið varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2018, segir að með því að sækjast eftir varaformennsku á sínum tíma hafi hún gefið merki til félagsmanna um að hún væri tilbúin að taka við sem formaður flokksins.

„Ég vil að það sé algjörlega skýrt að ég er tilbúin í þá ábyrgð sem mér hefur verið falin. Ég er algjörlega tilbúin í verkið, það væri ótrúlega mikill heiður og ég hef sterka sýn fyrir flokkinn og Ísland.

Ég veit líka að pólitík er sjúklega óstabílt umhverfi, maður getur ekki tekið neinu sem gefnu og það er ekki undir mér komið. Félagar mínir í flokknum þurfa að treysta mér fyrir því og styðja mig í það.“

Þyrst í meira hægri

Spurð um hvort hún gæti hugsað sér að sitja með öðrum flokkum í ríkisstjórn, svarar Þórdís að hún sé ekki með mikla afarkosti þegar kemur að stjórnarsamstarfi. Stjórnarviðræður fari eftir því hvað fólk vill á þeim tíma, hvaða mál hægt er að setja á dagskrá og byggja því á aðstæðum sem liggja ekki fyrir núna.

Hún viðurkennir þó að hún sé „orðin svolítið þyrst í meira hægri“. Spurð um mögulegt samstarf við Viðreisn svarar Þórdís:

„Viðreisn er auðvitað flokkur sem sprettur út úr Sjálfstæðisflokknum og er á margan hátt nálægt okkur. Mér finnst líka stundum skrýtið þegar fólk fer alveg að gasa þegar það talar um Viðreisn.“

Fyrr í þættinum lýsti hún því að ríkisstjórnarsamstarf með Vinstri grænum og Framsókn krefjist málamiðlana og að stjórnarliðar þurfi á köflum að vera þægir.

„Sumum finnst maður vera of þægur en sumum finnst maður of erfiður. Maður er ekki alltaf í einhverjum hugmyndafræðilegum rökræðum út á við út af því að þú þarft að taka tillit [til hinna stjórnarflokkanna],“ sagði Þórdís og bætti við að það hafi áhrif á hvernig fólk upplifi Sjálfstæðisflokkinn.

„Alveg ljóst að við höfum aukið útgjöld of mikið“

Áætlað er að ríkissjóður verði rekinn með um 120 milljarða króna halla á næsta ári eða sem nemur tæplega 3% af vergri landsframleiðslu. Þórdís tekur undir að ríkið gæti dregið mun hraðar úr hallarekstri eftir hraðan efnahagsbata. „Það er alveg ljóst að við höfum aukið útgjöld of mikið.“

Þórdís bendir á að ríkið hafið ráðist í gríðarlega umfangsmiklar stuðningsaðgerðir vegna Covid-faraldursins „sem ég studdi og er sannfærð um að hafi verið rétt [...] Við sögðum að við vildum frekar gera of mikið en of lítið. Við gerðum ótrúlega mikið og það fól í sér að það verður til halli.“

Þórdís segir að Covid-aðgerðir stjórnvalda hafi að uppistöðunni til verið vel heppnaðar og komið almennt vel út úr í úttektum alþjóðlegra stofnana á borð við OECD. Þá hafi þær gert það að verkum að ferðaþjónustan gat farið á fullt um leið og ferðamenn sneru aftur eftir afléttingar.

Hún tekur þó fram að Covid-aðgerðirnar séu ekki eina ástæðan fyrir útgjaldaaukningu ríkisins. Ýmis kerfi þurfi á uppstokkun og breyttri nálgun að halda líkt og heilbrigðiskerfið, m.a. vegna öldrun þjóðar. Einnig sé þörf á breyttu viðhorfi á þingi.

„Á þinginu er eiginlega enginn sem talar um að við séum að eyða of miklum peningum. Það eru allir bara með hugmyndir um allt hitt sem á að gera. Það er algjörlega inngróið að allt of miklu leyti,“ segir Þórdís.

„Við vitum að það er sóun í kerfinu. Það er það og það er enginn sem getur haldið því fram að svo sé ekki.“

Að ráðast í hagræðingaraðgerðir sé hins vegar mjög krefjandi í stjórnkerfinu að hennar sögn. Hún vísar til þess þegar hún lagði niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands árið 2020. Það hafi verið krefjandi verkefni og ekki til þess fallið að fá pólitískt klapp á bakið.

Þórdís segir að stjórnvöld hafi hlutverki að gegna í að stuðla að lægri verðbólguvæntingum með aðhaldi í ríkisfjármálum. „Ég held að við hljótum að taka það alvarlega og koma þá ekki fram með fjármálaáætlun sem sýnir eitthvað allt annað. Það verður alveg sársaukafullt og miserfitt fyrir fólk.“