*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 16. október 2021 11:38

Þorri hrunmála ekki haldið ytra

Málsmeðferð sakamála sem höfðuð voru í kjölfar efnahagshrunsins hefur sjaldan lent standandi eftir skoðun MDE.

Jóhann Óli Eiðsson
epa

Íslenska ríkið hefur fengið þorra svokallaðra hrunmála, það er að segja þeirra sem lauk með sakfellingu, í hausinn fyrir Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) þar sem pottur var víða brotinn í málsmeðferð þeirra. Nokkur mál eru enn í ferli fyrir dómstólnum og því mögulegt að listinn muni enn lengjast.

Aðdraganda falls bankanna verða ekki gerð ítarleg skil hér enda gert ráð fyrir því að lesendur séu sæmilega lesnir í þeim fræðum. Í kjölfar þess var embætti sérstaks saksóknara komið á fót en því var falið að rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem á endanum leiddi til setningar neyðarlaganna.

Upp úr þeim jarðvegi spruttu allnokkur sakamál og kannast flestir við nöfn sem við þau festust. Má þar nefna mál kennd við Al-Thani, Vafning, markaðsmisnotkunarmálin og Exeter I og II svo dæmi séu tekin. Í hluta málanna voru gerðar athugasemdir við málsmeðferð þeirra og gekk það svo langt að í Al-Thani málinu sögðu tveir verjendur, Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall, sig frá málinu skömmu áður en til aðalmeðferðar í héraði kom þar sem þeir töldu sig ekki hafa fengið aðgang að rannsóknargögnum öllum. Var þeim gerð réttarfarssekt vegna þessa og endaði það mál fyrir yfirdeild MDE. Varð það úr að ekki var fallist á að með réttarfarssektunum hefði verið brotið gegn réttindum þeirra samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).

Fjölskyldutengsl og hlutabréf

Athugasemdir við meðferð sakamálanna höfðu takmörkuð áhrif hér heima og hlutu heldur ekki mikinn hljómgrunn fyrir MDE. Þegar Al-Thani málið fór fyrir réttinn var það til að mynda niðurstaða dómsins að ekki hefði verið brotið á rétti hinna sakfelldu þegar þeim var synjað um aðgang að gögnum eða með vanrækslu á að boða vitni fyrir dóminn. Aftur á móti var talið að unnt hefði verið að draga hlutleysi eins dómara Hæstaréttar í málinu, Árna Kolbeinssonar, í efa sökum starfa sonar hans, Kolbeins Árnasonar, fyrir slitastjórn Kaupþings.

Undir lok árs 2016 var sagt frá því í fjölmiðlum að hluti dómara við Hæstarétt hefði átt hluti í hinum föllnu bönkum. Í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur gegn ríkinu, en hún hafði verið dæmd í átján mánaða fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í Hæstarétti í Ímon-málinu, var það niðurstaða MDE að draga hefði mátt óhlutdrægni eins dómara Hæstaréttar í efa sökum þess að hann hefði átt bréf í Landsbankanum sem urðu verðlaus við fall hans.

Af dómi MDE má ráða að nauðsynlegt sé að verðbréfaeign í bönkunum þurfi að hafa verið umtalsverð til að niðurstaða geti orðið á þann veg og að dómari verði að hafa setið í dómi tiltekins máls til að til vanhæfis geti komið. Viðar Már Matthíasson átti hluti í Landsbankanum og þá áttu Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson í Glitni. Mál sem varða Glitni eru enn til meðferðar fyrir MDE. Einn dómari, Greta Baldursdóttir, átti í Kaupþingi en hún sat ekki í dómum sem vörðuðu mál bankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.