*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 8. maí 2021 15:03

Þorri sjóða leggst gegn tilgreindri séreign

Takmörkuð ánægja virðist vera með fyrirhugaðar breytinga á lífeyrissjóðakerfinu, í það minnsta er hún vart sjáanleg í umsögnum.

Jóhann Óli Eiðsson
Breytingarnar má meðal annars rekja til kjarasamninga á almennum markaði.
Haraldur Guðjónsson

Takmörkuð ánægja virðist vera með fyrirhugaðar breytinga á lífeyrissjóðakerfinu, í það minnsta er hún vart sjáanleg í umsögnum við frumvarp fjármálaráðherra um efnið. Breytingarnar séu til þess fallnar að auka flækjustig og draga úr sveigjanleika án þess að nokkur nauðsyn fyrir slíku blasi við. Um er að ræða einar mestu breytingar á kerfinu frá lögfestingu laga um skyldutryggingu lífeyrissréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Meðal þess sem felst í frumvarpinu er að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verði hækkað úr 12% í 15,5% af iðgjaldsstofni auk þess að sjóðsfélögum verður veitt heimild til að ráðstafa hluta hækkunarinnar til svokallaðrar „tilgreindrar séreignar“. Greiðsla úr henni hefst í fyrsta lagi við 62 ára aldur, dreifist yfir minnst fimm ára tímabil og erfist við andlát sjóðsfélaga. Meðaltal réttindaöflunar mánaðarlegs lífeyris verður hækkað úr 1,4% í 1,8% af mánaðarlaunum en getur lækkað kjósi einstaklingur að nýta sér sérgreinda séreign. Þá er lagt til að verðtrygging lífeyrissjóðsgreiðslna verði ekki mánaðarleg, líkt og verið hefur, heldur árleg. Þá er rétt að geta þess að upphaf réttindaávinnslu hefjist við átján ára aldur í stað sextán.

Umræddar breytingatillögur byggja að meginstefnu á tillögum starfshóps sem skipaður var vorið 2017. Þá tengjast þær kjarasamningum á almennum markaði vorið 2019, stundum kallaðir lífskjarasamningarnir, en liður í þeim var að samræma lífeyrisréttindi almenna og opinbera markaðarins.

Landssamtökin klofin

„Frumvarpið er án efa stór þáttur í þeim samningum en [það] fellur illa að réttindakerfi ákveðinna sjóða sem telja að með því sé verið að flækja kerfið að ósekju og raska uppbyggingu lífeyrissparnaðar hjá sjóðfélögum viðkomandi sjóða,“ segir í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða. Þar segir enn fremur að skiptar skoðanir séu innan stjórnar samtakanna um ágæti þess og af þeim sökum telji þau sig hvorki geta stutt frumvarpið né „lýst sig eindregið andsnúin“ breytingunum.

Meðal sjóðanna er almennt sátt um að hækka skylduiðgjaldið en skiptar skoðanir eru um hvernig skuli skipta því. Afar skiptar skoðanir séu síðan um tilgreinda séreign og hvort þörf sé á henni. Í umsögn Frjálsa lífeyrissjóðsins er til að mynda bent á að það hafi lengi þótt ámælisvert hve flókið kerfið sé og að flækjustigið hafi þótt til þess fallið að draga úr áhuga fólks á lífeyrissparnaði.

„Sem dæmi má nefna að fyrir sjóðfélaga Frjálsa sem vildi hámarka séreignarhluta lífeyrissparnaðar síns, þyrfti viðkomandi að skipta 15,5% lágmarksiðgjaldi í samtryggingu, bundna séreign, frjálsa séreign og tilgreinda séreign, þ.e. í þrjár mismunandi tegundir séreignar. Viðbótariðgjöld sjóðfélaga rynnu svo í viðbótarsparnað, þ.e. í fjórðu tegundina. Útgreiðslur úr samtryggingu, bundinni séreign og frjálsri séreign myndu skerða lífeyri almannatrygginga en útgreiðslur úr tilgreindri séreign og viðbótarsparnaði myndu ekki valda skerðingum,“ segir í umsögn Frjálsa.

Standi undir minna en helmingi

Slíkt sé augljóslega bagalegt og krefjist þess að staldrað sé við áður en lagt sé í breytingarnar. Að mati Frjálsa vekur það furðu að skylda eigi sjóði til að „innleiða [tilgreinda séreign] fyrir tugþúsundir sjóðfélaga sem hentar betur að fá 3,5% iðgjaldið greitt áfram í séreign“ sem sé að fullu laus við 60 ára aldur. Aukið flækjustig, sem leiðir af breytingunni, sé síðan til þess fallið að auka rekstrarkostnað og hafa neikvæð áhrif á afkomu sjóðanna. Þar segir enn fremur að rúmlega helmingur lífeyrissjóða sé andvígur breytingunni og að „eignir og iðgjöld þeirra sjö lífeyrissjóða sem telja til samningssviðs ASÍ og SA [standi] undir minna en helmingi af eignum og árlegum iðgjöldum allra lífeyrissjóða“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.