Söluandvirði makríls hefur aukist verulega á síðustu árum, úr 1,7 miljarði króna árið 2009 í 6,5 milljarða króna árið 2011.

Þetta sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, á Viðskiptaþingi fyrir skömmu.

Þorstein Már fór yfir makrílveiðar Íslendinga. Hann benti á að til þess að veiða makríl og hámarka söluvirði hans þyrfti góð uppsjávarskip með mikla frystigetu og góðar dreifingarleiðir sem sömuleiðis hefðu mikla frystigetu. Stærstur hluti makríls er fluttur til Afríku og Japans.

Þorsteinn Már bar saman sjávarútveg hér á landi og í Noregi. Hann sagði norsk stjórnvöld styðja dyggilega við norsk sjávarútvegsfyrirtæki. Þá benti Þorsteinn Már á að á meðan íslensk uppsjávarskip væru komin til ára sinna væru Norðmenn að panta hvert skipið á fætur öðru.

Þorsteinn Már gagnrýndi harðlega ummæli stjórnmálamanna, t.d. Magnúsar Orra Schram, sem sagði Íslendinga hafa misst af „dauðafæri“ með því að fara ekki sömu leið og Færeyingar við makrílveiðar. Þannig hafði Magnús Orri gefið í skyn að íslenskt samfélag hafi ekki hagnast sem skyldi vegna makrílveiða íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.

Þorsteinn Már rakti ítarlega hvernig makrílveiðar Íslendinga hefðu fært íslensku þjóðarbúi nokkuð meiri tekjur en sambærilegar veiðar í Færeyjum. Fyrir utan laun og launatengd gjöld til sjómanna væru margfeldisáhrif veltunnar gífurleg hér á landi, m.a. í flutningum, umbúðaframleiðslu og svo frv.

Þá vék Þorsteinn Már enn að norskum stjórnmálamönnum. Hann benti á að norskir stjórnmálamenn hefðu farið í ferðir með norskum viðskiptamönnum til Afríku. „Þeir eru ekki hræddir við að láta sjá sig með aðilum úr atvinnulífinu,“ sagði Þorsteinn Már. Hann benti á að norskir ráðherrar væru með svokallað opið dagatal, þ.e. að dagskrá þeirra væri opinber. Eftir því sem fram kemur á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins fundaði norski sjávarútvegsráðherrann reglulega með hagsmunasamtökum, fyrirtækjum, erlendum aðilum og svo frv.

Þorsteinn Már gaf ekkert eftir í gagnrýni sinni á íslensk stjórnvöld. Hann sagði erfitt fyrir íslensk stjórnvöld að bera sig saman við norsk stjórnvöld á meðan þau töluðu niður atvinnulífið með þeim hætt sem þau gera nær daglega. Í lok ræðu sinnar sýndi Þorsteinn Már stutt myndbandsbrot úr nýlegri ræðu Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, þar sem hann lofar norskt atvinnulíf og aðila úr atvinnulífinu.

Úr fyrirlestri Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á Viðskiptaþingi 2012.
Úr fyrirlestri Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á Viðskiptaþingi 2012.
© Gísli Freyr Valdórsson (VB MYND/GFV)

Úr fyrirlestri Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, á Viðskiptaþingi 2012. Myndin er ekki óskýr, Þorsteinn Már hafði sjálfur afmáð ummæli og stefnu stjórnvalda gagnvart atvinnulífinu. Sagði þau þess eðlis að ekki væri rétt að hafa þau eftir.