Þau Björk Þórarinsdóttir, sem var forstöðumaður fyrirtækjasviðs Arion banka, og miðlararnir Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, hafa öll snúið aftur til starfa hjá Arion banka. Þau voru send í leyfi í kjölfar þess að embætti sérstaks saksóknara gaf út ákæru á hendur þeim í mars í tengslum við rannsókn á meintri markaðsmisnotkun hjá Kaupþingi í aðdraganda bankahrunsins haustið 2008. Samtals voru níu fyrrverandi starfsmenn Kaupþings ákærðir í málinu. Þar á meðal Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forsstjóri Kaupþings-samstæðunnar, Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi, og fleiri.

Björk sat í lánanefnd Kaupþings á sínum tíma og var hún m.a. ákærð fyrir að hafa tekið ákvörðun um veitingu í kringum sextán milljarða króna lána til tveggja félaga, Holt Investment Group og Desulo Trading vegna kaupa þeirra á hlutabréfum í bankanum. Hluta af máli hennar var vísað frá dómi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tæpum hálfum mánuði. Björk var ekki ákærð fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkuninni heldur fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína. Greint var frá því formlega í dag að Freyr Þórðarson hafi tekið við starfi hennar hjá Arion banka.