Þrettán sveitarfélög eru yfir leyfilegu skuldaviðmiði, sem þýðir að þau skulda meira en 150% af reglulegum tekjum sínum. Í fyrra voru tólf sveitarfélög yfir þessu viðmiði þannig að staðan að þessu leyti hefur versnað milli ára. Árbók sveitarfélaga kom út í vikunni en þar er að finna samantekt á fjárhagsstöðu allra sveitarfélaga landsins.

Í sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 var lögð sú lína að hlutfall heildarskulda  af  tekjum  sveitarfélaga mætti ekki fara yfir 150 prósent. Ákveðinn  aðlögunartími var gefinn   og höfðu sveitarfélög allt að 10 ár til að laga reksturinn að þessu markmiði.

Þrjú ný á listann

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS), sem er nefnd innanríkisráðuneytisins, reiknar út skuldaviðmiðið og fékk Viðskiptablaðið útreikningana. Af þeim þrettán sveitarfélögum sem eru nú yfir leyfilegu skuldaviðmiði eru þrjú ný en það eru Bolungarvík, Ísafjarðarbær og Árborg. Skuldastaða Árborgar hefur versnað verulega milli ára. Skuldirnar jukust um 1,6 milljarð króna milli áranna 2013 og 2014.

Tvö sveitarfélag eru dottin út af lista þeirra sem skulda meira en 150% af tekjum. Það eru Seyðisfjörður og Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum sem Viðskiptablaðið fékk frá innanríkisráðuneytinu í fyrra skuldaði borgin 216% af tekjum sínum árið 2013. Nú er skuldaviðmiðið komið niður í 92% miðað við ársreikning síðasta árs. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er ástæðan sú að í reglugerð er ákvæði þar sem heimilt er að undanskilja veitu- og orkufyrirtæki vegna útreikninga á skuldaviðmiði. Skuldir Orkuveitu Reykjavíkur eru því ekki með í nýjum útreikningum. Samkvæmt ráðuneytinu hefði líka átt að gera þetta í fyrra og það var reyndar gert í ársskýrslu EFS en ekki í þeim útreikningum sem Viðskiptablaðið fékk. Það má geta þess að skuldahlutfall borgarinnar, þegar rekstur Orkuveitunnar er hafður með, var 216% um síðustu áramót. Skuldir borgarinnar jukust um ríflega 800 milljónir króna milli ára.

Fljótsdalshérað skuldar 246%

Reykjanesbær hefur mikið verið í umræðunni undanfarin ár enda fjárhagsstaða bæjarins afleidd. Árið 2013 var Reykjanesbær í efsta sæti listans — skuldaði 255% af tekjum sínum. Nú er þetta hlutfall komið niður í 234% og það þrátt fyrir að skuldir bæjarins hafi aukist um 370 milljónir króna milli áranna 2013 og 2014. Fljótsdalshérað er í dag það sveitarfélag sem verst er sett að þessu leyti. Um síðustu áramót skuldaði sveitarfélagið 246% af tekjum sínum. Skuldirnar jukust um 615 milljónir milli ára.

Hér fyrir neðan er listi yfir þau þrettán sveitarfélög sem skulda nú meira en 150% af tekjum og heildarskuldir þeirra. Neðst á listanum má sjá stöðu Reykjavíkurborgar.

skuldahlutfall
skuldahlutfall

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga er skipuð af innanríkisráðherra. Skuldaviðmiðið sem notað er til að skoða hvort sveitarfélög skulda meira en 150% af tekjum er skilgreint í reglugerð 502/2012. Viðmiðið er ólíkt skuldahlutfallinu, sem er einfaldlega fundið út með því að deila tekjum A- og B-hluta í skuldir og skuldbindingar. Þegar skuldaviðmiðið er fundið út eru þrjú atriði höfð til hliðsjónar sem geta komið til frádráttar á skuldum og skuldbindingum. Í fyrsta lagi leiguskuldbindingar frá ríkissjóði, Í öðru lagi eru lífeyrisskuldbindingar sem áætlað er að komi til greiðslu eftir 15 ár og í þriðja lagi ef hreint veltufé er jákvætt skal draga það frá skuldum og skuldbindingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .