Flugfélagið Icelandair hóf sölu á miðum til Aberdeen í Skotlandi í gær, en félagið hefur um langt skeið boðið upp á flug til borgarinnar Glasgow í sama landi. Þrátt fyrir að Aberdeen sé nær Keflavíkurflugvelli en Glasgow verða farþegar til borgarinnar næstum klukkustund lengur á leiðinni. Túristi greinir frá þessu.

Ástæðan fyrir þessu er sú að Flugfélag Íslands, systurfélag Icelandair, mun starfrækja flugið til Aberdeen með annars konar flugvél en nýtt er í flugið til Glasgow. Þannig verður ein af Bombardier farþegavélum Flugfélagsins notuð í flugið og mun það taka vélina tvo klukkutíma og fimmtíu mínútur að fljúga frá Keflavík til Aberdeen. Flugið til Glasgow tekur hins vegar tvo klukkutíma og fimm mínútur þar sem notast er við Boeing-þotur Icelandair.

Ódýrustu fargjöldin til borganna eru þrátt fyrir þetta þau sömu, eða 17.205 krónur, að því er segir á vef Túrista.