*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 25. október 2017 19:16

Þriðjungi minni hagnaður Nýherja

Þó hagnaður Nýherja hafi minnkað milli ára á 3. ársfjórðungi jókst hann um 62 milljónir fyrstu níu mánuði ársins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fyrstu níu mánuði ársins nam heildarhagnaður Nýherja 266 milljónum króna en á þriðja ársfjórðungi nam hagnaðurinn 29 milljónum króna. Á sama tíma í fyrra nam heildarhagnaðurinn 204 milljónum króna en þar af komu 93 af þeim á þriðja ársfjórðungi.

Hagnaðurinn á þessum ársfjórðungi voru því 31,2% af hagnaði miðað við sama tíma í fyrra, en þá var rúmlega 45% hagnaðar félagsins fyrir alla níu mánuðina komnir til á síðustu þrem mánuðum tímabilsins. Eiginfjárhlutfall Nýherja nam 45,2% í lok þriðja ársfjórðungs en í byrjun hans var það 43,8%.

Settu Tempo í söluferli

Á árinu keypti Nýherji Timian Software ehf, og TM Software ehf, keypti hugbúnaðarlausn Dacoda fyrir bílaleigur. Jafnframt hefur Nýherji sett verulegan eignarhlut í Tempo ehf. í formlegt söluferli.

Á ársfjórðungnum seldi fyrirtækið vörur og þjónustu fyrir 3.515 milljónir króna, sem gerir 2,5% tekjuaukningu, en fyrstu níu mánuði ársins námu tekjurnar 11.120 milljónum króna. Á sama tíma í fyrra námu tekjurnar fyrir allt tímabilið 10.555 milljónum króna en 3.429 milljónum króna í júlí, ágúst og september.

Framlegðin minnkaði á milli ára, fór hún úr 860 milljónum króna og 25,1% miðað við þriðja ársfjórðung í fyrra niður í 859 milljónir og 24,4% á þessu ári. Fyrir allt tímabilið lækkaði framlegðin úr 2.676 milljónum, sem þá nam 25,4% í 24,6% á þessu ári, þó upphæðin væri hærri, eða 2.739 milljónir króna.

EBITDA félagsins lækkaði einnig en hún fór úr 247 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi síðasta árs niður í 229 milljónir króna í ár. Fór EBITDA hlutfallið, það er EBITDA af rekstrartekjum félagsins, úr 7,2% niður í 6,5%, en miðað við allt tímabilið fór það úr 6,5% niður í 6,1%. EBITDAn sjálf fór úr 686 milljónum króna í 682 milljónir. 

Tekjurnar jukust um 5% milli tímabila

Finnur Oddsson forstjóri Nýherja segir að tekjur fyrirtækisins hafi aukist lítillega á milli annars og þriðja fjórðung ársins eða um ríflega 5% það sem af er ári. „Á sama tíma hefur launakostnaður aukist umfram vöxt tekna, sem nauðsynlegt er að bregðast við með frekari hagræðingu í rekstri.  Að því hefur verið unnið undanfarna mánuði, m.a. með nokkurri fækkun starfsfólks,“ segir Finnur.

„Annar þáttur í frekari eflingu rekstrar felst í sameiningu Nýherja og dótturfélaganna TM Software og Applicon, sem munu starfa undir sama flaggi frá byrjun næsta árs.  Með sameiningu félaganna verður skipulag og lausnaframboð samstæðu einfaldað, sem mun gera okkur kleift að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini okkar og sækja betur samstíga fram á markaði. Að sama skapi þá mun sameining félaganna gera okkur kleift að hagræða í innviðum, samræma ferla og nýta mannauðinn betur. 

Sala á vörum og þjónustu var góð á tímabilinu en eigin hugbúnaðarlausnir stuðla áfram að tekjuvexti.  Kjarna, launa- og mannauðskerfi, hefur verið mjög vel tekið af viðskiptavinum og mikill áhugi er á CCQ (e. Cloud Compliance & Quality) sem fyrirtæki nýta til að styðja við innleiðingu gæðakerfa. Áfram er mikil eftirspurn eftir öryggislausnum, t.d. nota flestir af helstu bönkum landsins QRadar frá IBM til að vakta eigin kerfi. Sala á PC búnaði gengur sem fyrr vel og mjög mikill vöxtur er í sölu á hljóð- og myndlausnum frá NEC, Bose og Sony. Það er einnig gaman að sjá aukinn áhuga fyrirtækja á úthýsingu á rekstri upplýsingatækniinnviða, en tekjur af rekstrarþjónustu og ráðgjöf jukust um ríflega 20% á fjórðungnum.  

Kröftugur tekjuvöxtur var áfram hjá Tempo, 34% í USD það sem af er ári. Síðastliðið ár hefur verið unnið að undirbúningi á söluferli á félaginu í samstarfi við fjárfestingabankann AGC Partners, en því var formlega ýtt úr vör í síðustu viku. Markmiðið er að selja verulegan eignarhlut í Tempo og fá að félaginu samstarfsaðila með reynslu og þekkingu í uppbyggingu á alþjóðlegri hugbúnaðarstarfsemi. Þannig teljum við okkur geta stutt betur við vöxt og viðgang Tempo og skapað um leið aukið virði fyrir eigendur og viðskiptavini.“ 

Keyptu nýjar lausnir

Finnur segir eiginfjárhlutfall fyrirtækisins bera með sér að samstæðan hafi styrkt stöðu sína. „Við erum almennt sátt við stöðu samstæðunnar nú og framundan. Það eru vissulega ögranir í rekstrarumhverfinu, sem við munum halda áfram að takast á við, en tækifærin eru til staðar og félagið í sterkri stöðu til að nýta sér þau og vaxa áfram,“ segir Finnur sem segir fyrirtækið hafa styrkt sig með bæði kaupum á nýjum lausnum og uppbyggingu eigin lausna.

„Kjarni, CCQ, Saga sjúkraskrárkerfi og eigin viðbætur við bankalausnir frá SAP eru dæmi um eigin þróun sem hefur gengið vel. Við höfum fest kaup á lausnum sem falla vel að öðru lausnaframboði og eftirspurn frá viðskiptavinum, t.d. bílaleigukerfi frá Dacoda, sem við tengjum við flotastýringar- og leiðsögukerfi fyrir bílaleigur hjá TM Software og Timian, rafrænni innkaupalausn, sem með öðrum lausnum frá Applicon gerir viðskiptavinum kleift að auka verulega gagnsæi og hagkvæmni í innkaupum.“