Stærsti hluti ferðaþjónustufyrirtækja hafa verið rekin með neikvæðu eiginfé síðasta áratuginn. Þrátt fyrir fjölgun ferðamanna og 17% tekjuaukningu ferðaþjónustufyrirtækja árið 2011 hefur það ekki leitt til þess að fyrirtækin skili rekstrarhagnaði.

Þetta kom fram í erindi Gústafs Steingrímssonar, starfsmanni Hagfræðideildar Landsbankans, á ráðstefnu bankans um vöxt og væntingar í ferðaþjónustu sem nú stendur yfir í Hörpu.

Gústaf fór yfir greiningu deildarinnar um rekstur ferðaþjónustufyrirtækja. Í úttekt deildarinnar var farið yfir ársreikninga 1.075 fyrirtækja í ferðaþjónustu. Fram kom í máli Gústafs að hjá þriðjungi allra ferðaþjónustufyrirtækja væri ársveltan undir 3,7 milljónum króna, sem skýrist að mestu af því að um er að ræða einyrkjastarfsemi þar sem reksturinn er í raun hliðarrekstur eigenda.

Eins og margoft hefur komi fram hafa þær miklu breytingar sem hafa orðið á rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar á síðustu árum komið fram með tvenns konar hætti, annars vegar gengisfalli krónunnar sem eykur kaupmátt ferðamanna og hins vegar mikilli fjölgun ferðamanna.

Þetta hefur þó ekki bætt rekstur ferðaþjónustufyrirtækja nema að takmörkuðu leyti. Niðurstaða greiningarinnar er sú að smærri fyrirtæki eru ekki eins vel til þess fallin að stand að uppbyggingu í ferðaþjónustu á sama hátt og stærri fyrirtæki. Þau skila síður rekstrarafgangi og hafa ekki náð að nýta sér uppsveifluna eftir gengisfall krónunnar. Þar af leiðandi skila þau minni arðsemi og eiga erfiðara um vik að fá lán hjá fjármálastofnunum.